Þór/KA valtaði yfir Tindastól

Leikmenn Þórs/KA fagna marki í kvöld.
Leikmenn Þórs/KA fagna marki í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Þór/KA og Tindastóll mættust 6. umferð Bestu-deildar kvenna í fótbolta í dag. Leikið var í Boganum í Þorpinu á Akureyri en upphaflega átti að spila þennan leik á Sauðárkróki.

Liðin mættust síðast í bikarkeppninni fyrir sex dögum en þann leik vann Þór/KA 2:1. Það var aldrei spurning í kvöld hvort liðið myndi hafa betur. Þór/KA vann öruggan 5:0-sigur og er liðið komið upp í 2. sæti deildarinnar.

Í kvöld var einstefna á mark Tindastóls nánast allan leikinn. Þór/KA skoraði fjögur mörk í fyrri hálfleiknum og hefði vel getað haft þau fleiri. Sóknarþungi heimakvenna var mikill og spilamennskan stórgóð.

Oft gekk boltinn hratt manna og kanta á milli svo unun var á að horfa. Hornspyrnur heimakvenna voru líka hættulegar og komu tvö mörk eftir horn. Hin tvö komu eftir langar og hárnákvæmar sendingar úr öftustu línu.

Í síðari hálfleiknum var meira jafnvægi í leiknum en heimakonur sóttu þó mun meira. Ljóst var að Tindastólskonur ætluðu ekki að láta valta yfir sig og þær sóttu aðeins í sig veðrið um miðbik hálfleiksins. Heimakonur misstu bitið úr sóknum sínum og flestar enduðu þær með langskotum.

Má segja að engin alvöru færi hafi litið dagsins ljós í seinni hálfleiknum. Undir lok leiksins komu ferskir fætur inn á hjá Þór/KA. Sonja Björg Sigurðardóttir og Emelía Ósk Kruger komu saman inn á völlinn og var fimmta mark leiksins þeirra.

Emelía skoraði með skalla eftir sendingu Sonju Bjargar. 5:0 urðu lokatölurnar og mikil gleði á meðal stuðningsfólks Þórs/KA.

Það er ljóst að toppliðin tvö í deildinni mætast á Akureyri í næstu umferð. Breiðablik kemur í heimsókn til Þórs/KA og verður fróðlegt að sjá þann leik.

Þór/KA 5:0 Tindastóll opna loka
90. mín. Lara Margrét Jónsdóttir (Tindastóll) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert