Brandari að hún var sú eina sem skoraði ekki

Leikmenn Þórs/KA fagna einu af fimm mörkum sínum í gærkvöld.
Leikmenn Þórs/KA fagna einu af fimm mörkum sínum í gærkvöld. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Það er mikið stuð á liði Þórs/KA þessa dagana. Liðið hefur unnið fimm leiki í röð í Bestu deildinni í fótbolta og svo einn bikarleik til viðbótar.

Í gærkvöld vann Þór/KA Tindastól 5:0 og skoruðu fimm leikmenn mörkin. Það er mikil stemning meðal leikmanna og stuðningsfólks en næsta verkefni liðsins er leikur gegn toppliði Breiðabliks eftir tvær vikur.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, gaf sig á tal við blaðamann eftir leik.

„Mér fannst við vera að spila frábærlega í fyrri hálfleik. Ákefðin og einbeitingin var til fyrirmyndar. Það var mikið hungur í leikmönnum og þannig viljum við mæta til leiks.“

Staðan var 4:0 eftir fyrri hálfleikinn en Þór/KA sótti áfram í seinni hálfleik en bitið var farið úr sóknunum. Þeir varamenn sem komu inn þegar leið á hálfleikinn komu inn með aukinn kraft.

„Við töluðum um það í hálfleik að það er ákveðin hætta á að menn slaki á í svona stöðu. Að vera búnar að fara all-inn í fermingaveisluna en ætla svo að koma hungraðar út í seinni hálfleikinn. Því miður, sama þótt þú sért þrautreyndur leikmaður, þá bara gerist það oft að menn gefa aðeins eftir. Þú ert með örugga forustu. Ég er þó ánægður með að við gáfum ekki mark eða einhver alvöru færi.

Það var smá klaufagangur hjá leikmönnum og menn kannski ætluðu líka að skora mörg mörk í einu. Leikmenn héldu baráttunni áfram og hættu aldrei að hlaupa og vinna fyrir liðið og það er ég ánægður með.

Jafnframt ber að hrósa þeim sem komu inná. Það er alltaf sama planið hjá öllum sem koma inná hjá okkur. Að setja mark sitt á leikinn, njóta þess að spila og reyna að breyta leiknum, alveg sama hvernig staðan er. Einkennandi fyrir þetta er þegar Sonja og Emelía koma inn og þær bara búa til mark upp á sitt einsdæmi.“

Flott gulrót fyrir okkur

Það má segja að Þór/KA sé í toppslagnum með Breiðabliki og Val. Þið eruð nú í 2. sætinu og næsti leikur er heimaleikur gegn toppliði Breiðabliks, sem er þremur stigum á undan ykkur og Valskonum.

„Við vorum aðeins búin að horfa í að þessi staða gæti komið upp. Leikurinn er eftir tvær vikur og við gætum verið að setja allt í stál þá. Það er flott gulrót fyrir okkur. En nú þurfum við að byrja á að hvíla okkur. Það er komin langþráð hvíld í mótinu og nokkrir leikmenn þurfa verulega á henni að halda.“

Liðið hefur verið að skora mikið í síðustu leikjum og margir leikmenn að komast á blað. Tveir úr þriggja manna varnarlínunni ykkar skoruðu í dag. Aðeins Hulda Björg klikkaði á því þrátt fyrir að hafa fengið algjört dauðafæri.

„Hún átti flestar marktilraunir af varnarmönnunum og bara frábær brandari að hún var sú eina sem skoraði ekki. Það er hins vegar mjög ánægjulegt að sjá mörk í öllum regnbogans litum en svo er líka alltaf extra gott að halda sínu marki hreinu“ sagði þjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert