Jensen: Hefðum gert það sama og Slóvenar

Johnny Jensen.
Johnny Jensen. Reuters

Johnny Jensen, varnarmaðurinn sterki í liði Noregs, segir að Norðmenn hefðu gert það sama og Slóvenar gerðu í leiknum gegn Íslendingum á Evrópumótinu í handknattleik í kvöld.

Slóvenar vildu ekki vinna Íslendinga með meira en þriggja marka mun svo þeir kæmust í milliriðilinn með 2 stig en ekki 0 stig. Það kom berlega í ljós því skömmu fyrir leikslok voru þeir fjórum mörkum yfir en gáfu Íslendingum hreinlega tvö mörk á lokasekúndunum. Íslendingar fóru áfram í milliriðilinn með þessum úrslitum þar sem Norðmenn töpuðu fyrir Króötum.

,,Við hefðum gert það sama og Slóvenía. Þannig er þetta bara. Slóvenar léku vel og lönduðu tveggja marka sigri. Það er bara bull að tala um einhverja háttvísi,“ sagði Jensen við NTB fréttastofuna eftir leikinn við Króata í kvöld en Norðmenn pakka saman í kvöld og halda heimleiðis frá Serbíu á morgun.

mbl.is