Þrælgóð stemning eftir sigurinn

Rúnar Kárason í leiknum gegn Svíum.
Rúnar Kárason í leiknum gegn Svíum. Ljósmynd/Gordan Lausic

Rúnar Kárason lét til sín taka í sigurleiknum gegn Svíum á EM í Split og sagðist í samtali við mbl.is hafa verið lengi að ná sér niður eftir sigurinn. 

„Það fer svo mikil orka í þessa leiki, og maður fer svo hátt upp, að ég held ég hafi ekki sofnað fyrr en um þrjúleytið. Fyrir vikið var svolítið erfitt að rífa sig upp í morgunmat í morgun en engu að síður auðveldara að gera það eftir sigurleik. Það var ótrúlega góð tilfinning að fara inn í nýjan dag eftir sigurleik. Allir strákarnir laufléttir og þrælgóð stemning eftir þetta stórvirki í gær,“ sagði Rúnar sem skoraði 5 mörk í 26:24 sigrinum á Svíum. 

Rúnar lét mjög til sín taka á upphafsmínútunum þegar íslenska liðið byggði upp myndarlegt forskot. Ísland komst í 4:0, 6:1 og 12:5 svo eitthvað sé nefnt og snemma í síðari hálfleik varð munurinn tíu mörk. Hvað fór í gegnum hugann hjá Rúnari þegar Ísland náði þessu mikla forskoti snemma leiks?

„Þegar staðan var orðin 12:5 þá hugsaði ég með mér að við þyrftum að ná muninum upp í tíu mörk. Að við yrðum að drepa leikinn. Ef menn lenda tíu mörkum undir í fyrri hálfleik þá koma menn ekki til baka úr slíkri stöðu. Í seinni hálfleik náðum við tíu marka forskoti og stigum þá stórt skref í áttina að sigri. Þegar maður sér svona tölur þá líður manni ofboðslega vel og þá verða hlutirnir aðeins auðveldari fyrir mann. Andstæðingarnir ströggla og þurfa að sækja úr stöðum. Þeir þurfa að endurstilla sig og svara fyrir aðgerðir okkar frekar en að það sé öfugt. Við vorum bara skrefi framar en þeir nánast allan leikinn, ef frá er talinn kafli í síðari hálfleik,“ sagði Rúnar Kárason í samtali við mbl.is í dag. 

mbl.is