Andstæðingur dagsins: Króatar

Lino Cervar er tekinn við landsliði Króatíu á ný.
Lino Cervar er tekinn við landsliði Króatíu á ný. AFP

Ísland mætir í dag Króatíu í öðrum leik sínum í A-riðli EM karla í handknattleik í Króatíu. Leikurinn hefst í Split klukkan 19:30 að íslenskum tíma. Hér eru nokkur atriði er varða króatíska liðið. 

-Metnaður Króata stendur til þess að vinna gullverðlaun á heimavelli á EM 2018.

- Króatar hafa endurheimt sigursælan þjálfara. Lino Cervar, sem stýrði Króatíu þegar liðið varð heimsmeistari 2003 og ólympíumeistari 2004, er snúinn aftur og tók við króatíska liðinu fyrir EM 2018. Er það talið undirstrika metnað Króata til að vinna EM. 

- Samkvæmt nýjustu fréttum verður Domagoj Duvnjak ekki með. Almennt talinn einn allra besti leikstjórnandi í heimi og leikur með Kiel undir stjórn Alfreðs Gíslasonar. Meiddist í fyrsta leik gegn Serbíu. 

- Hægri hornamaðurinn Ivan Cupic er marksækinn. Iðulega skorar hann mörg mörk á stórmótum bæði úr hraðaupphlaupum en einnig úr vítum. Spilar með Vardar sem sigraði í Meistaradeild Evrópu 2017 og skoraði sigumarkið í úrslitaleiknum. 

- Varnarleikur Króata er öflugur. Ekki er þó auðvelt fyrir andstæðinga að lesa hann. Línumaðurinn hávaxni og reyndi Igor Vori spilar oft fremstur í 5-1 vörn. Hann getur líka bakkað og þá er spiluð 6-0 vörn. Erfitt er að reikna út hvaða vörn Króatar spila en þeir eru klókir sama hver útfærslan er. 

- Króatar eiga marga leikmenn sem eru geysilega sterkir í stöðunni maður á móti manni þegar Króatar sækja. Okkar menn gætu því þurft að vera mjög duglegir í að hjálpa samherjum sínum í vörninni.

- Þar sem Duvnjak mun ekki spila gegn Íslandi hlýtur Luka Cindric að fá stórt hlutverk. Cindric leikur með Vardar sem sigraði í Meistaradeild Evrópu 2017. 

- Þegar Króatar spila 5-1 vörn sína er sennilegt að Íslendingar láti hornamenn leysa inn á línu og spila 4-2 sókn. Þá þurfa okkar menn að gæta þess að senda ekki langar þversendingar á milli því króatísku hornamennirnir stela þeim um leið og færi gefst sem skilar sér í auðveldum marktækifærum fyrir þá úr hraðaupphlaupum. 

Landslið Íslands.
Landslið Íslands. Ljósmynd/Gordan Lausic
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert