„Hrikalega gaman að fá að spila handbolta“

Gisli Þorgeir Kristjánsson í leiknum í kvöld.
Gisli Þorgeir Kristjánsson í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Gísli Þorgeir Kristjánsson sagðist ekki geta neitað því að það væri léttir að vera búnir að afgreiða fyrsta leikinn á EM í handknattleik með sigri í Búdapest. 

Íslensku landsliðsmennirnir hafa þurft á bíða á hótelum allan janúar eftir því að spila þar sem fyrirhugaðir vináttulandsleikir gegn Litháen urðu að engu vegna heimsfaraldursins. Við slíkar aðstæður getur byggst upp mikil spenna þegar íþróttamönnum þurfa að bíða eftir því að fá að keppa. 

„Þetta er mikill léttir. Við höfum verið í einangrun í tvær vikur og fengum enga æfingaleiki. Því var hrikalega gaman að fá að spila handbolta. Í alvöru talað. Hvað þá í þessari höll og fyrir framan þessa stórkostlegu stuðningsmenn sem við erum með. Þetta var mjög skemmtilegt og flottur leikur af okkar hálfu. Mér fannst við útfæra leikinn vel hvað taktíkina varðar. Hugarfarið var gott og það sást á því hvernig við komum inn í leikinn. Það var aldrei neitt stress eða hik í okkar spilamennsku, sama hvað gekk á.“

Gísli bar mikla ábyrgð í sókninni. Hann hóf leikinn sem leikstjórnandi og skipti þá við Elvar Örn Jónsson sem lék í miðri vörninin ásamt Ýmir Erni Gíslasyni. Gísli lék virkilega vel og er nú í stærra hlutverki en áður þar sem axlarmeiðsli hafa litað hans feril í nokkur ár. Var Gísli ánægður með sóknina hjá íslenska liðinu? 

„Já mér fannst við skapa gott færi nánast í hverri einustu sókn. Ég brenndi á tveimur skotum í byrjun en mér fannst við skapa góð færi. Þegar við vorum komnir með sex marka forskot þá kom stuttur kafli sem var ekki góður en það var ekkert sem við náðum ekki að leysa. Ég er hrikalega stoltur af þessari spilamennsku hjá okkur,“ sagði Gísli í samtali við mbl.is að leiknum loknum í Búdapest. 

Gísli leikur nú með númer 10 á bakinu og bringunni. …
Gísli leikur nú með númer 10 á bakinu og bringunni. Er það vel til fundið. Í baksýn er Ólafur Guðmundsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Gísli skoraði 4 mörk í leiknum og lék í treyju númer 10 en var áður númer 18 í landsliðinu. Faðir hans Kristján Arason lék í treyju númer 10 fyrir Íslands hönd á fjórum stórmótum frá 1984 - 1990 (Á þeim tíma liðu fjögur ár á milli HM og EM hafði ekki verið komið á). 

mbl.is