„Finnst við eiga betra skilið en 6. sæti“

Ágúst Elí Björgvinsson segir unun að vera hluti af landsliðshópnum.
Ágúst Elí Björgvinsson segir unun að vera hluti af landsliðshópnum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Þetta verður varla meira svekkjandi en þetta,“ sagði markvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson þegar mbl.is ræddi við hann eftir tapið nauma gegn Noregi í leiknum um fimmta sætið á EM í handknattleik í dag. 

„Við spiluðum hörku vörn allan tímann og menn börðust eins og vtileysingar. Sóknin var einnig góð og okkur tókst að komast í fín skotfæri. Auðvitað eru margir dauðþreyttir þegar langt er liðið á mótið og það sást annað slagið í leiknum. Við náðum samt alltaf að koma okkur reglega í góð skotfæri og stóðum vörnina vel,“ sagði Ágúst Elí sem kom talsvert við sögu í seinni hálfleik og fyrri hálfleik í framlengingunni. Leikurinn var æsispennandi og ekki sá fyrsti hjá Íslandi í keppninni þar sem íslenskir stuðningsmenn halda niðri í sér andanum á lokakaflanum. 

„Það má alveg segja að við höfum verið óheppnir. Við fengum boltann á síðustu sekúndunum og Elvar Örn skaut rétt framhjá. Mér fannst við vera með þá allan leikinn en kannski féll eitthvað aðeins meira þeim megin þegar uppi var staðið. Svona leikir eru stöngin út og stöngin inn. Við fáum suma dóma með okkur og aðra ekki. Það er stutt á mlli í þessu.“

Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson unnu vel saman …
Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson unnu vel saman eftir að Björgvin Páll Gústavsson smitaðist. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Ég er ógeðslega stoltur af liðinu og hvernig við höfum tæklað þessi mál sem hafa sett svip á keppnina. Skiljanlega er erfitt fyrir leikmenn að spila 60 mínútur í nánast öllum leikjum en þvílíkur karakter sem liðið hefur sýnt. Það eru þvílíkir karakterar og leiðtogar í liðinu og þar af leiðandi er alger unun að vera hluti af þessu.  

Í hreinskilni sagt finnst mér við eiga betra skilið en 6. sæti miðað við hvernig liðið hefur spilað. En við höfum líka sent skilaboð með árangrinum í þessari keppni. Þegar menn koma úr deildinni heima inn í miðja keppni og skila góðri frammistöðu. Menn hafa sýnt fáránlega mikinn barátttuanda,“ sagði Ágúst Elí Björgvinsson í samtali við mbl.is í Búdapest. 

mbl.is