Kroos var svo gott sem búinn að semja við United

Toni Kroos.
Toni Kroos. AFP

Þýski miðjumaðurinn Toni Kroos var svo gott sem búinn að semja við Manchester United árið 2014 en ekkert varð úr félagsskiptunum þegar David Moyes var rekinn sem knattspyrnustjóri enska félagsins.

Moyes missti starfið í Manchester í apríl 2014 á fyrsta tímabili sínu sem arftaki Sir Alex Ferguson en hann var greinilega byrjaður að undirbúa næstu leiktíð. Skotinn vildi fá þýska miðjumanninn til Old Trafford og voru viðræður United við Bayern München langt komnar.

„David Moyes kom að hitta mig og samningurinn var svo gott sem klár,“ sagði Kroos sjálfur í viðtali við The Athletic. „Svo var Moyes rekinn og Louis van Gaal tók við, það flækti stöðuna.“

„Louis vildi tíma til að skipuleggja sitt eigið verkefni og ég heyrði ekkert í United í smá tíma. Þá fór ég að hafa efasemdir. Svo byrjaði heimsmeistaramótið, Carlo Ancelotti hringdi í mig og þannig fór það,“ bætti hann við en Kroos gekk að lokum til liðs við Real Madríd á Spáni.

United var þó ekki eina enska félagið sem reyndi að klófesta Kroos. Þáverandi fyrirliði Liverpool, Steven Gerrard, og samherji hans, Luis Suárez, reyndu að sannfæra Þjóðverjann um að koma á Anfield.

„Þeir buðust til að segja mér frá félaginu og svo framvegis. Það fyndna er samt að Suárez var á leiðinni til Barcelona á sama tíma.“

mbl.is