Eðlilegt að meistararnir slaki á

Mohamed Salah og Jürgen Klopp í leikslok.
Mohamed Salah og Jürgen Klopp í leikslok. AFP

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Manchester Untied, segir eðlilegt að Liverpool hafi aðeins stigið af bremsunni þegar liðið heimsótti Manchester City í ensku úrvalsdeildinni á Etihad-völlinn í Manchester í gær. Leiknum lauk með 4:0-sigri City sem var sterkari aðilinn í leiknum og nýtti færi sín betur.

Liverpool varð enskur meistari í síðustu viku í fyrsta sinn í þrjátíu ár og segir Keane eðlilegt að ákefðin hefði ekki verið jafn mikil hjá leikmönnum Liverpool og fyrr á tímabilinu. „Það er bara mannlegt eðli að stíga aðeins af bensíngjöfinni,“ sagði Keane í samtali við Sky Sports eftir að leiknum lauk.

„Ég hef upplifað þetta sjálfur, að eiga einhverja leiki eftir, en vera búinn að tryggja mér Englandsmeistaratitilinn. Maður slakar ósjálfsrátt á, ég gerði það, og það er eðlilegt að leikmenn Liverpool hafi gert það líka. City er ennþá að berjast um annað sætið og þeir eru líka í Meistaradeildinni og bikarkeppninni.

Þeir hafa að mörgu að keppa á meðan tímabilið er í raun búið hjá Liverpool. Klopp var pirraður í viðtali eftir leik og það er nákvæmlega ástæðan fyrir því að Liverpool verður í og við toppinn á næstu árum. Þeir eru með þjálfara sem hatar að tapa og þess vegna munu þeir berjast um titilinn á næstu árum,“ bætti Keane við.

mbl.is