Dyche við Tómas: Alltaf stuð í kringum Jóa

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, er á sínu áttunda tímabili með liðið en hann tók við stjórnartaumunum hjá félaginu árið 2012 og hefur tvívegis farið með liðið upp í ensku úrvalsdeildina á tíma sínum hjá félaginu.

Árið 2016, þegar hann kom Burnley upp í efstu deild í annað sinn, fékk hann íslenska landsliðsmanninn Jóhann Berg Guðmundsson til liðs við sig frá Charlton.

Jóhann hefur verið lykilmaður í liði Burnley, þegar hann er heill heilsu, en hann hefur verið óheppinn með meiðsli á undanförnum árum.

„Það fyrsta sem ég sagði við hann þegar hann kom til félagsins var að hann ætti langt í land með að ná Heiðari Helgusyni, íslenskri goðsögn, og góðum vini mínum,“ sagði Dyche.

„Hann hafði mjög gaman að því en að öllu gríni slepptu þá er hann gríðarlega hæfileikaríkur leikmaður með frábæra tækni.

Leikskilningur hans hefur tekið miklum framförum en hann hefur lygilega óheppinn með meiðsli líka sem hefur verið svekkjandi.

Hann er virkilega vinnusamur leikmaður, skemmtilegur og hress karakter, og það er virkilega gaman að vinna með honum og alltaf stuð í kringum hann,“ bætti Dyche við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert