Agüero í einangrun vegna veirunnar

Sergio Agüero er farinn í einangrun og missir af næstu …
Sergio Agüero er farinn í einangrun og missir af næstu tveimur leikjum Manchester City. AFP

Knattspyrnumaðurinn Sergio Agüero er kominn í einangrun og missir af næstu tveimur leikjum Manchester City eftir að hafa verið í návígi við einstakling sem reyndist smitaður af kórónuveirunni.

Agüero átti að spila sinn fyrsta leik síðan í október í dag þegar City vann Birmingham í ensku bikarkeppninni, 3:0, en þurfti að draga sig úr hópnum. Hann sjálfur hefur ekki greinst með veiruna enn sem komið er, en mun nú undirgangast aðra skimun til öryggis. Hvað sem því líður þarf Argentínumaðurinn að vera í einangrun næstu tíu daga og missir hann því af leikjum City gegn Brighton og Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, staðfesti þetta við Sky Sports eftir leikinn í dag en fimm aðrir leikmenn hjá félaginu hafa þurft að vera í einangrun nýlega vegna veirunnar, þeir Kyle Walker, Gabriel Jesus, Scott Carson, Eric Garcia og Cole Palmer.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert