Frakkar með tök á Þjóðverjum undanfarin ár

Nær þýska landsliðið, sem sést hér á æfingu í gær, …
Nær þýska landsliðið, sem sést hér á æfingu í gær, að sigra það franska í fyrsta sinn í sjö ár? AFP

Frakkland og Þýskaland mætast í F-riðli Evrópumótsins í fótbolta karla í kvöld. Heimsmeistarar Frakka hafa haft góð tök á Þjóðverjum á undanförnum árum.

Þannig er Frakkland taplaust í síðustu fimm viðureignum liðanna, eða frá því Þýskaland vann 2:0-sigur í átta-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Brasilíu árið 2014, þar sem Þjóðverjar urðu að lokum heimsmeistarar.

Í vináttulandsleik rúmu ári síðar unnu Frakkar 2:0 og unnu sömuleiðis 2:0 sumarið þar á eftir í undanúrslitum EM 2016, og hefndu þar með fyrir tapið á HM tveimur árum fyrr.

Í nóvember 2017 gerðu liðin 2:2 jafntefli í vináttulandsleik og í september árið 2018 gerðu liðin markalaust jafntefli í Þjóðadeild Evrópu.

Mánuði síðar vann Frakkland svo 2:1-sigur, einnig í Þjóðadeildinni, og hafa liðin ekki mæst síðan.

Þýskaland er á heimavelli í kvöld þar sem leikið verður í München, og freistar liðið þess að vinna sinn fyrsta sigur gegn Frakklandi í sjö ár.

Leikurinn hefst klukkan 19.

mbl.is