Ein sú besta útskrifuð sem læknir

Nadia Nadim í baráttu við Kristínu Dís Árnadóttur í leik …
Nadia Nadim í baráttu við Kristínu Dís Árnadóttur í leik með PSG gegn Breiðablik í Meistaradeild Evrópu árið 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dansk-afganska knattspyrnukonan Nadia Nadim útskrifaðist í síðustu viku sem læknir, en hún hefur sinnt námi sínu samhliða því að vera atvinnumaður á hæsta stigi í íþróttinni.

Þetta tilkynnti Nadim, sem er 34 ára gamall sóknarmaður, á twitteraðgangi sínum fyrir helgi.

Hún hefur verið einn fremsti sóknarmaður heims um langt árabil og leikur um þessar mundir með Racing Lousville í bandarísku atvinnumannadeildinni eftir að hafa orðið Frakklandsmeistari með París Saint-Germain síðastliðið vor.

Nadim hefur einnig leikið með Manchester City í ensku úrvalsdeildinni og lék með Dagnýju Brynjarsdóttur hjá Portland Thorns í Bandaríkjunum um tveggja ára skeið, þar sem þær urðu Bandaríkjameistarar árið 2017.

Þá á hún 99 landsleiki að baki fyrir Danmörku og hefur skorað í þeim 38 mörk.

Saga Nadim hefur áður ratað í fréttirnar enda afar merkileg. Hún er fædd í Afganistan en flúði þaðan ásamt fjölskyldu sinni til Danmerkur þegar faðir hennar, herforingi í afganska hernum, var myrtur af Talíbönum árið 2000. Þá var Nadim 12 ára gömul.

Hún talar alls níu tungumál og hefur undanfarin ár aðstoðað við skurðaðgerðir samhliða knattspyrnuiðkun sinni. Nú er Nadim útskrifuð sem lýtalæknir sem sérhæfir sig í endurbyggingu hvers konar, til að mynda hjá fólki sem hefur lent í slysum.

mbl.is