Rúnar aftur til Rúmeníu

Rúnar Már Sigurjónsson í leik með CFR Cluj í Rúmeníu.
Rúnar Már Sigurjónsson í leik með CFR Cluj í Rúmeníu. Ljósmynd/CFR Cluj

Knattspyrnumaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson er kominn til Rúmeníu á nýjan leik og búinn að semja við Voluntari en hann yfirgaf CFR Cluj í vor og hefur verið án félags síðan.

Rúnar er 32 ára miðjumaður og hefur leikið 32 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann lauk í vor sínu öðru tímabili hjá CFR Cluj en hann varð rúmenskur meistari með liðinu bæði árin.

Hann er uppalinn í Tindastóli en kom 17 ára til liðs við HK og var þar í þrjú ár. Lék síðan með Val í þrjú og hálft ár ár en hefur síðan verið í atvinnumennsku með Sundsvall í Svíþjóð, Grasshoppers og St. Gallen í Sviss og Astana í Kasakstan áður en hann fór til Rúmeníu. Rúnar vann meistaratitil með Astana.

Voluntari er í níunda sæti af sextán liðum í rúmensku 1. deildinni, Liga I, þegar leikin hefur verið 21 umferð af 30 áður en deildinni verður skipt í tvennt. Liðið er sex stigum frá því að ná sjötta sætinu sem þarf til að komast í efri hlutann í vor. Vetrarfrí í deildinni hófst eftir leiki um síðustu helgi og hún fer af stað á ný 20. janúar.

Liðið er frá samnefndri borg í útjaðri höfuðborgarinnar Búkarest. Rúnar er eini íslenski knattspyrnumaðurinn sem hefur leikið með rúmensku liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka