Pelé er látinn

Pelé hefur verið talinn einhver snjallasti knattspyrnumaður sögunnar.
Pelé hefur verið talinn einhver snjallasti knattspyrnumaður sögunnar. AFP/Maria R. Bastone

Brasilíumaðurinn Pelé, einn frægasti og dáðasti knattspyrnu- og íþróttamaður sögunnar, er látinn, 82 ára að aldri, eftir baráttu við krabbamein.

Pelé varð þrisvar heimsmeistari með liði Brasilíu, árin 1958, 1962 og 1970, og var aðeins 17 ára þegar hann skoraði tvö mörk í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í Svíþjóð árið 1958. Hann hefur af mörgum verið talinn besti knattspyrnumaður sögunnar.

Pelé fæddist í Trés Coracoes í Brasilíu, skammt frá Sao Paulo, 23. október 1940. Hann gekk 15 ára gamall til liðs við Santos og skoraði í fyrsta leik sínum með aðalliði félagsins 7. september 1956. 

Fullt nafn hans er Edson Arantes do Nascimento. Hann var kallaður Dico innan fjölskyldunnar til að byrja með en gælunafnið Pelé varð til á skólaárum hans þegar hann bar nafn uppáhaldsleikmanns síns, markvarðarins Bilé, vitlaust fram. 

Pelé ólst upp í fátækt í borginni Bauru í Sao Paulo-fylki og lék þar með unglingaliðum, ásamt því að leika innanhússfótbolta með fullorðnum mönnum frá 14 ára aldri. Pelé sagði oft frá því síðar að hann hefði lært mikið af innanhússfótboltanum því vegna nálægðar leikmanna hefði hann þurft að hugsa hraðar og bregðast hraðar við heldur en í venjulegum fótbolta utanhúss. Eins hefði hann fengið mikið sjálfstraust með því að ganga vel að skora mörk gegn fullorðnum mótherjum.

Þjálfarinn hans hjá Bauru Athletic Club, fyrrverandi landsliðsmaðurinn Waldemar de Brito, fór með Pelé til reynslu hjá Santos í samnefndri nágrannaborg. De Brito fullyrti við forráðamenn félagsins að þessi 15 ára gamli strákur ætti eftir að verða besti knattspyrnumaður heims. Pelé fékk að spreyta sig á æfingum hjá félaginu og heillaði strax aðalþjálfara Santos, þannig að hann skrifaði undir atvinnusamning við félagið í júní 1956.

Pelé í treyju Santos árið 1961.
Pelé í treyju Santos árið 1961. AFP

Fyrsta meistaraflokksleikinn með Santos lék Pelé í september 1956, þá 15 ára gamall, og hann skoraði eitt mark í 7:1 sigri gegn Corinthians de Santo André.

Frá 16 ára aldri var Pelé fastamaður í liði Santos og var markahæsti leikmaður liðsins og deildarinnar strax á fyrsta tímabilinu, árið 1957. Árið eftir setti hann markamet þegar hann skoraði 58 mörk í meistarakeppni Sao Paulo-fylkis, og það met stendur enn. Santos vann deildina það ár.

Árið 1957, áður en Pelé varð 17 ára, lék hann fyrstu tvo A-landsleiki sína fyrir Brasilíu og skoraði í þeim báðum. Hann er enn yngsti markaskorari brasilíska landsliðsins eftir að hafa skorað gegn Argentínu í 2:1 ósigri 7. júlí árið 1957.

Pelé sló í gegn á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð árið 1958, þá 17 ára gamall. Hann missti af fyrstu tveimur leikjunum vegna meiðsla en  varð yngsti leikmaður HM frá upphafi þegar hann lék gegn Sovétríkjunum. 

Hann skoraði sigurmarkið gegn Wales, 1:0, í átta liða úrslitum, skoraði þrennu þegar Brasilía vann Frakkland í undanúrslitum, 5:2, og síðan tvö mörk í úrslitaleiknum þegar Brasilía varð heimsmeistari í fyrsta skipti með því að sigra Svíþjóð 5:2. Pelé endaði sem næstmarkahæsti leikmaður keppninnar með sex mörk.

Árið eftir var Pelé valinn besti leikmaður Suður-Ameríkumótsins, þá 18 ára gamall, og þegar heimsmeistaramótið í Síle hófst árið 1962 var hann talinn besti knattspyrnumaður heims. Hann skoraði í fyrsta leik mótsins en meiddist í öðrum leik og náði ekki að spila meira með Brasilíu sem varð samt heimsmeistari með því að sigra Tékkóslóvakíu í úrslitaleiknum, 3:1.

Pelé skoraði fyrsta mark Brasilíu á HM 1966 á Englandi en meiddist í leiknum, missti af þeim næsta og spilaði haltur í þeim þriðja þar sem liðið féll úr keppni. Pelé tilkynnti að mótinu loknu að hann myndi ekki spila aftur á HM og lék ekki aftur með brasilíska landsliðinu fyrr en 1968. 

Pelé á fullri ferð í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar árið 1970 gegn …
Pelé á fullri ferð í úrslitaleik heimsmeistarakeppninnar árið 1970 gegn Ítalíu. AFP

Honum snerist hugur varðandi HM. Pelé skoraði sex mörk fyrir Brasilíu í undankeppninni árið 1969 og blómstraði síðan í lokakeppninni í Mexíkó árið 1970. Þar fór hann fyrir brasilíska liðinu sem varð heimsmeistari eftir stórsigur á Ítalíu, 4:1, í úrslitaleiknum og það lið hefur oft verið kallað besta lið sögunnar. Pelé skoraði eitt mark og lagði upp tvö í leiknum og hann var valinn besti leikmaður keppninnar.

Pelé fagnar heimsmeistaratitlinum árið 1970 með Brasilíu, sínum þriðja HM-titli.
Pelé fagnar heimsmeistaratitlinum árið 1970 með Brasilíu, sínum þriðja HM-titli. AFP

Með þessum sigri varð Pelé fyrstur í sögunni til að verða þrisvar heimsmeistari í knattspyrnu og er enn þann dag í dag sá eini sem hefur náð þeim árangri. Þá varð hann fyrstur til að skora á fjórum heimsmeistaramótum.

Pelé dró sig í hlé frá brasilíska landsliðinu árið 1971 og lék kveðjuleik sinn gegn Júgóslavíu í Ríó de Janeiro í júlímánuði það sumar. Hann fagnaði sigri í 67 af 92 landsleikjum sínum fyrir Brasilíu.

Pelé með heimsstyttuna sem hann hampaði þrisvar sem heimsmeistari með …
Pelé með heimsstyttuna sem hann hampaði þrisvar sem heimsmeistari með liði Brasilíu. AFP/Franck Fife

Pelé lék 19 keppnistímabil með Santos og vann brasilíska meistaratitilinn sex sinnum með liðinu á árunum 1961 til 1968. Hann varð suðuramerískur meistari með Santos 1962 og 1963 og vann Álfukeppnina, viðureignir meistaraliða Evrópu og Suður-Ameríku, sömu tvö ár, eftir sigra á Benfica og AC Milan, sem og meistarabikar Evrópu og Suður-Ameríku sem liðið vann árið 1968 með því að sigra Inter Mílanó í úrslitaleik.

Framan af ferlinum reyndu mörg félög í Evrópu að fá Pelé til liðs við sig. Real Madrid, Juventus, Manchester United, Inter Mílanó og Valencia freistu þess öll að fá hann í sínar raðir á árunum 1958 til 1962. Inter komst næst því, Pelé hafði þegar undirritað samning við félagið árið 1958, en Santos náði að sannfæra eiganda ítalska félagsins um að rífa samninginn vegna heiftarlegra viðbragða stuðningsmanna Santos við fyrirhugaðri sölu á piltinum snjalla.

Það var ekki síst í leikjum Santos gegn evrópsku stórliðunum sem Pelé ávann sér hylli heimsbyggðarinnar í eitt skipti fyrir öll. Hann var þjóðhetja í Brasilíu allt frá árinu 1958 og jók vinsældir sínar með því að tala óhikað máli hinna fátækari í landinu og studdi alls kyns umbætur þeim til handa. Árið 1961 sendi brasilíska ríkisstjórnin ásamt forseta landsins frá sér sérstaka tilkynningu um að Pelé væri formleg “þjóðargersemi” 

Santos lék á þessum árum marga sýningar- og vináttuleiki víða um heim þar sem Pelé var mesta aðdráttaraflið. Sem dæmi um vinsældir hans og áhrif var gert tveggja sólarhringa vopnahlé í borgarastyrjöldinni í Nígeríu árið 1969 til þess að allir gætu séð hann spila leik gegn úrvalsliði í landinu. Pelé olli ekki vonbrigðum og og skoraði bæði mörk Santos í jafnteflisleik, 2:2.

Pelé lék áfram með Santos en dró sig að mestu leyti í hlé eftir tímabilið 1974, þá 34 ára að aldri. Hann lék samt af og til með félaginu en gekk til liðs við New York Cosmos í Bandaríkjunum í júní 1975 og lauk þar ferlinum með meistaratitli árið 1977, með sigurleik gegn Seattle Sounders í úrslitaleik, 2:1. Formlegur kveðjuleikur hans var á milli Cosmos og Santos á troðfullum Giants-leikvanginum í New York 1. október 1977. Viðureigninni var sjónvarpað um allan heim og Pelé skoraði kveðjumarkið á ferlinum með þrumufleyg úr aukaspyrnu af 30 metra færi. Hann átti þó enn eftir að spila nokkra sýningarleiki hér og þar á næstu árum.

Pelé skoraði 643 mörk í 660 mótsleikjum með Santos og 37 mörk í 64 mótsleikjum með New York Cosmos. Mörk hans fyrir Santos voru heimsmet í markaskori fyrir eitt og sama félagsliðið þar til Lionel Messi sló það með Barcelona í árslok 2020.

Pelé ásamt Frakkanum Kylian Mbappé fyrir þremur árum.
Pelé ásamt Frakkanum Kylian Mbappé fyrir þremur árum. AFP/Franck Fife

Fyrir Brasilíu skoraði hann 77 mörk í 92 landsleikjum og það er enn markamet brasilíska landsliðsins en Neymar jafnaði það á HM í Katar í desember 2022. Fyrir önnur úrvalslið en landsliðið skoraði Pelé 18 mörk í 24 leikjum og opinber mörk hans á ferlinum voru því samtals 775 í 840 leikjum.

Þegar alls kyns óopinberir leikir eru taldir með, sýningarleikir, vináttuleikir, leikir með úrvalsliðum brasilíska hersins ofl., lék Pelé alls 1.363 leiki á ferlinum og skoraði í þeim 1.281 mark.

Pelé var lengi nokkurs konar sendiherra fótboltans um allan heim og kom víða við. Meðal annars á Íslandi en hann dvaldi hér á landi í þrjá daga í ágúst árið 1991 og heimsótti mörg féllög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert