Freydís Halla bíður enn – „Aldrei frestað á Íslandi“

Starfsmenn fara yfir brautina í hvassviðrinu í nótt áður en …
Starfsmenn fara yfir brautina í hvassviðrinu í nótt áður en ákveðið var að fresta keppni. AFP

Keppni í alpagreinum á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang heldur áfram að riðlast, en í nótt var keppni í svigi kvenna frestað fram á föstudag. Freydís Halla Einarsdóttir bíður því enn eftir því að fá að keppa á leikunum.

Fyrri ferðin í sviginu átti að hefjast klukkan 01.15 að íslenskum tíma og upphaflega ákváðu mótshaldarar að seinka keppni um 45 mínútur áður en ákvörðun var tekin um endanlega frestun. Enn eru það vindar á mótssvæðinu sem er ástæða frestunarinnar.

Áður var búið að fresta keppni í stórsvigi hjá Freydísi, sem og keppni í bruni karla. Samkvæmt núgildandi áætlun á Freydís því að keppa í stórsvigi aðfaranótt fimmtudags og í svigi aðfaranótt föstudags.

„Það er erfitt að vakna 05:40 marga daga í röð til að undirbúa sig andlega og líkamlega fyrir keppni og fá svo fréttir um aðra frestun. Þar að auki er erfitt að keppa tvo daga í röð. Þessu yrði aldrei frestað á Íslandi, þó að það sé mjög hvasst hérna erum við vön að keppa í ýmsum veðrum heima. Kóreumenn vilja hins vegar halda fullkomið mót og hafa því ákveðið að fresta,“ er haft eftir Freydísi hjá RÚV.

Freydís Halla Einarsdóttir var fánaberi á setningarathöfninni í Pyeongchang en …
Freydís Halla Einarsdóttir var fánaberi á setningarathöfninni í Pyeongchang en bíður enn eftir því að keppa á leikunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert