„Ég vil vera best í heimi“

Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur tvívegis sigrað heimsleikana í crossfit, árið …
Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur tvívegis sigrað heimsleikana í crossfit, árið 2015 og 2016, og stefnir hún á að endurheimta titilinn í ár. Ljósmynd/Instagram

Þrátt fyrir að enn sé hálft ár í heimsleikana í crossfit kemst fátt annað að hjá Katrínu Tönju Davíðsdóttur, afrekskonu í crossfit, sem hefur hreppt titilinn hraustasta kona heims í tvígang. Katrín Tanja tryggði sitt sæti á heimsleikana í ár þegar hún hrósaði sigri á „Fittest in Cape Town,“ undankeppni fyrir heimsleikana sem fór fram í Suður-Afríku um síðustu helgi.

Katrín Tanja sigraði í fjór­um af tíu grein­um móts­ins og náði for­ystu strax á fyrsta degi sem hún hélt til lok­a móts­ins. Í öðru sæti voru Mia Åker­lund frá Sam­einuðu ar­ab­ísku fursta­dæmun­um og Al­ess­andra Pichelli frá Ítal­íu. Katrín Tanja segir í samtali við mbl.is að þrátt fyrir að henni hafi gengið vel í keppninni hafi hún aldrei verið örugg um sigurinn.

„Maður er aldrei öruggur, maður má ekki hugsa þannig. Maður veit aldrei hvað kemur næst. Ég tek þetta bara eina grein í einu og geri mitt besta í henni. Það er rosalega margt sem mér finnst mega hafa gengið betur og ég vil vera betri í,“ segir hún.

Fagnaði sigrinum dansandi uppi á sviði

Katrín Tanja er óvön að keppa í janúar en vegna nýs fyrirkomulags fyrir undankeppni heimsleikanna, þar sem sextán mót skera úr um hverjir komast á leikana og dreifast yfir lengri tímabil, er keppnistímabilið hafið fyrr en vanalega.

„Mér fannst ég ekki eins undirbúin og ég vil vera þegar ég keppi. En þetta var gott fyrir mig og ég er mjög spennt að komast aftur í æfingar. Það er alltaf svo margt sem maður lærir á hverju móti,“ segir Katrín Tanja.

Sigrinum fagnaði hún samt sem áður vel og innilega ásamt fylgdarliði, það er þjálfara, umboðsmanni og æfingafélaga sínum, Cole Sager, sem lenti í öðru sæti í karlaflokki. „Við fórum á stað sem núna er uppáhaldsveitingastaðurinn minn í heiminum. Þetta var hefðbundinn afrískur matur, 13 réttir sem bornir eru fram hver frá mismunandi landi í Afríku á meðan að það var „live show“ í gangi, afrísk tónlist og dansar,“ segir Katrín Tanja og spenningurinn leynir sér ekki. Kvöldið endaði með þeim hætti að hún og Cole fóru upp á svið með listamönnunum og spreyttu sig á danssporunum. „En ég held að við höldum okkur bæði við crossfit,“ segir hún og hlær. „Hann reyndar var furðu góður,“ bætir hún við um Cole.

Katrín Tanja gaf sér tíma fyrir smá safarí í Suður-Afríku …
Katrín Tanja gaf sér tíma fyrir smá safarí í Suður-Afríku þar sem hún hreifst mest af mössuðum litlum nashyrningum og ljónunum. Ljósmynd/Instagram

Óvenjulegt að keppa í janúar og febrúar

Katrín Tanja segir ákvörðunina um að taka þátt á mótinu í Höfðaborg mjög góða. „Þegar þetta nýja fyrirkomulag kom út þá byrjuðum við á að skoða hvenær við vildum keppa. Við ákváðum að janúar og febrúar væri góð tímasetning fyrir okkur og þá komu tvö mót til greina, Cape Town og London.“ Þar sem Katrín Tanja hafði aldrei komið til Höfðaborgar varð hún fyrir valinu, auk hagstæðs loftslags. „Mér líður rosalega vel að æfa í hita og þetta er ein besta og magnaðasta ferð sem ég hef farið í. Þessi ákvörðun var góð.“

Keppnin skiptist niður á þrjá daga og líkt og fyrr segir sigraði Katrín Tanja í fjórum af tíu greinum keppninnar. Æfingar í crossfit eru mjög fjölbreyttar og fá keppendur yfirleitt stuttan tíma til að undirbúa sig eftir að tilkynnt er um hverja keppnisgrein. Katrín Tanja er þekkt fyrir að vilja leggja sig alla fram og því kemur ekki á óvart að uppáhaldsgreinin hennar fólst í þremur hringjum þar sem keppendur þurftu að keyra sig áfram í þrjár mínútur með tveggja mínútna pásu á milli. „Maður gefur allt sem maður á í þessar þrjár mínútur svo hefur maður tvær mín til að jafna sig, ná hjartslættinum niður og gíra sig í að gera þetta allt upp á nýtt! Ég elska svona „keyrslu-wod.“  

Katrín Tanja ræðir við þjálfara sína á Fittest in Cape …
Katrín Tanja ræðir við þjálfara sína á Fittest in Cape Town. Ljósmynd/Instagram

Leiðin á leikana önnur en markmiðin þau sömu

Hingað til hafa íslensku crossfit-keppendurnir tekið þátt á svokölluðum Evrópuleikum í maí þar sem fimm efstu sætin tryggja sæti á heimsleikunum sem fram fara í Madison í Bandaríkjunum í ágúst. Katrín Tanja lenti í þriðja sæti á heimsleikunum í fyrra og er staðráðin í að gera betur í ár og hefur hún nú hálft ár til að einbeita sér alfarið að heimsleikunum. „Ég er bara mjög spennt að sjá hvernig þetta ár spilast. Allar breytingar eru alltaf óþægilegar í fyrstu, mest bara vegna þess að maður veit ekki nákvæmlega hvernig allt er. En markmiðið er enn það sama, það er að vera best í ágúst og það er að toppa á leikunum. Leiðin til að komast þangað er bara aðeins önnur núna en þetta gekk vel hjá okkur og núna höfum við sex mánuði til að undirbúa okkur vel.“

Crossfit-iðkendur geta tryggt sér sæti á leikunum með öðrum hætti en með þátttöku í sérstökum undankeppnum, til dæmis með því að taka þátt í Crossfit Open, þar sem gera þarf ákveðnar æfingar vikulega í fimm vikur og skila inn skýrslu. Katrín Tanja ætlar að sjálfsögðu að taka þátt í Open, þrátt fyrir að vera búin að tryggja sæti sitt á leikana. „Það er best að komast inn á leikana í gegnum Open, þá fær maður hærra „ranking“ heldur en í gegnum greinarnar í undankeppninni.“

Markmið Katrínar er að verða efst meðal íslenskra kvenna. „Ég mun án efa fá góða samkeppni frá Annie & Söru. En topp 20 í heiminum er líka markmiðið og mun þá gefa mér gott sæti inn á leikana.“  

Katrín Tanja sigraði í fjórum af tíu greinum í keppninni …
Katrín Tanja sigraði í fjórum af tíu greinum í keppninni sem tryggði henni heildarsigur á mótinu og sæti á heimsleikunum sem fara fram í sumar. Ljósmynd/Instagram

Ætlar að sigra heimsleikana í ár

Markmið Katrínar Tönju fyrir heimsleikana sjálfa er svo skýrt. „Ég vil vera best í heimi. Ég vil vinna crossfit-leikana 2019. Ég geri mér vel grein fyrir að það er markmið sem er fyrir utan það sem ég hef stjórn á. En það er það sem ég vil og veit ég hef getuna til,“ segir hún.

Leikarnir í ár verða þeir sjöundu sem Katrín Tanja keppir á. Hún uppgötvaði crossfit eftir að hafa fylgst með Annie Mist Þórisdóttur vinna leikana 2011 og tók hún þátt á sínum fyrstu leikum 2012. Árið 2014 komst hún hins vegar ekki á leikana sem gaf henni ákveðinn kraft þar sem hún mætti tvíefld ári seinna og sigraði leikana. Ári seinna endurtók hún leikinn.

Síðustu tvö ár hafa ekki verið eins sigursæl hjá Katrínu Tönju, hún lenti í fimmta sæti á leikunum 2017 og í þriðja sæti í fyrra. Hvað sem því líður segist hún enn þá elska crossfit. „Ég held að ég hugsi um það á hverjum einasta degi hvað ég er virkilega heppin að fá að gera þetta a hverjum degi, að þetta er atvinnan mín, áhrifin sem ég get haft og fólkið sem ég hef kynnst. Auðvitað er hver dagur ekki léttur og alltaf dans á rósum en þegar maður er með skýr markmið og veit af hverju maður er að þessu þá dregur það mann í gegnum hvað sem er.“

Katrín Tanja er stödd hér á landi í nokkra daga en síðan liggur leið hennar til Boston þar sem hún ætlar að æfa af kappi og taka þátt í Open. „Systir mín er að fara eignast litla stelpu núna bara þess vegna í dag. Ég hef rúma viku hér áður en eg svo fer aftur til Boston þar sem taka við stífar æfingar.“

Katrín Tanja ætlar einnig að taka þátt í Rogue Invitational-undankeppninni í maí, en það þýðir að hún missir af Reykjavík Crossfit Championship sem verður haldið hér á landi og gefur einnig keppnisrétt á leikunum.

„Það er mjög gott að hafa mót til að stefna að, mér finnst mjög gaman að keppa og það heldur mér á tánum. Það er alltaf eitthvað til að bæta sig í og ég sé endalausa möguleika á að verða betri. Hvern einasta dag vakna ég og er spennt að bæta eitthvað. Ég veit ekki hvort sú tilfinning fari nokkurn tímann,“ segir Katrín Tanja, sem stefnir á að ná titlinum hraustasta kona heims af Tiu Clair Toomey í sumar, sem hefur sigrað á heimsleikunum síðustu tvö ár.  

Katrín Tanja er fyrsti íslenski crossfit-keppandinn sem tryggir sæti sitt á leikunum, en það má fastlega gera ráð fyrir því að Annie Mist, Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir og Björgvin Karl Guðmundsson tryggi sæti sitt fljótlega. Þá eru fleiri keppendur líklegir, eins og til dæmi Björk Óðinsdóttir og Þuríður Erla Helgadóttir. 

mbl.is