Björgvin og Frederik öttu kappi í Perlunni

Björgvin Karl og Frederik eru góðir félagar og kepptu þeir …
Björgvin Karl og Frederik eru góðir félagar og kepptu þeir á móti hvor öðrum í Perlunni í gær. Ljósmynd/Aðsend

Það var mikið um dýrðir í Perlunni í nótt þegar þriðja æfingin í Crossfit Games Open-keppninni var tilkynnt. Annie Mist Þórisdóttir og Evert Víglundsson tilkynntu æfinguna og Frederik Aegidius, kærasti Anniear, og Björgvin Karl Guðmundsson sem framkvæmdu æfinguna við mikinn fögnuð viðstaddra.

Æfingin var á dagskrá klukkan eitt eftir miðnætti til að koma til móts við fjölmarga crossfit-aðdáendur vestanhafs, auk þess sem skipulagning Open er í höndum bandarísku Crossfit-samtakanna. 

Open-keppnin er hluti af undankeppni fyrir heimsleikana í crossfit. Allir geta tekið þátt og þeir sem hafna í 20 efstu sætunum í karla- og kvennaflokki tryggja sér þátttökurétt á heimsleikana í crossfit sem fram fara í Madison í Wisconsin í ágúst. 

Open keppnisfyrirkomulagið stendur yfir í fimm vikur og er ný æfing kynnt í hverri viku og hafa keppendur viku til að skila inn skori. 

Keppendur hafa því tæpa viku til að framkvæma æfinguna sem tilkynnt var í gær. Hún er svohljóðandi, en keppendur hafa tíu mínútur til að ljúka við: 

  • 60 metra framstigsganga haldandi á lóði fyrir ofan höfuð. 
  • 50 fótstig upp á kassa með lóð í hendi. 
  • 50 handstöðupressur
  • 60 metra handstöðuganga
50 handstöðupressur voru hluti af æfingunni.
50 handstöðupressur voru hluti af æfingunni. Skjáskot/Facebook

Eins og kunnugt er á Ísland ótal afreksfólk sem stundar crossfit og staðan eftir tvær æfingar er þannig að Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir er í fyrsta sæti, Annie Mist Þórisdóttir í sjötta sæti og Katrín Tanja Davidsdottir í því fjórtánda. Í karlaflokki er Björgvin Karl Guðmundsson í fimmta sæti. Sara og Katrín hafa nú þegar tryggt sér keppnisrétt á heimsleikunum.

Crossfit-aðdáendur á Íslandi sem misstu af open-viðburðinum í nótt geta fylgst með þeim Björgvini og Frederik taka æfinguna á myndskeiðinu hér að neðan og því er það af ásettu ráði sem ekki kemur fram í fréttinni hvor var á undan að klára æfinguna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert