Allir leikir á HM eru erfiðir

„Við byrjuðum vel og héldum áfram út leikinn. Þetta var gott,“ sagði Dennis Hedström, markmaður íslenska íshokkílandsliðsins, eftir 8:1-sigur á heimamönnum Mexíkó í þriðja leik liðsins í B-deild 2. deildar á heimsmeistaramótinu. 

„Þetta var liðsframmistaða. Allir lögðu sitt af mörkum fyrir liðið. Við spiluðum saman og héldum okkur við það sem við lögðum upp með að gera,“ sagði Dennis. „Mexíkó er heimaliðið og fékk það mikinn stuðning. Þeir voru sterkir í byrjun, en svo tókum við völdin og vorum sterkari,“ sagði Dennis, sem var valinn besti maður íslenska liðsins eftir leik, en hann varði 22 skot. 

Næsti leikur Íslands er gegn Georgíu. Íslenska liðið ætti að vinna þann leik, ef allt er eðlilegt, miðað við önnur úrslit á mótinu. Dennis er hins vegar ekki alveg viss við hverju má búast í þeim leik. 

„Ég er ekki viss. Þeir eru stórir og láta örugglega finna fyrir sér. Þeir hafa fengið mikið af vítum á sig, en við verðum að halda áfram að gera okkar. Allir leikir eru erfiðir á heimsmeistaramóti og þú verður að vera 100 prósent klár.“

Íslenska liðið fær einn hvíldardag fyrir leikinn við Georgíu. „Við munum hvíla okkur eftir þennan leik og vonandi getum við skoðað Mexíkó aðeins. Fyrst og fremst munum við endurnærast,“ sagði Dennis Hedström. 

Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. 

Dennis Hedström í leiknum gegn Mexíkó.
Dennis Hedström í leiknum gegn Mexíkó. Ljósmynd/Bjarni Helgason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka