Kannski bara meistaraheppni?

Óttar Bjarni Guðmundsson, varnarmaður ÍA.
Óttar Bjarni Guðmundsson, varnarmaður ÍA. mbl.is/Arnþór

„Þetta gekk rosalega vel í 35 mínútur eða þangað til þeir fá eina gefins aukaspyrnu. Hálfgerða forgjöf frá dómara leiksins. Þá þurftum við aðeins að bregðast við og gerðum það mjög vel í seinni hálfleik,“ sagði Óttar Bjarni Guðmundsson, varnarmaður ÍA, sem tapaði 2:0 gegn KR í Vesturbænum í Pepsi Max-deild karla í kvöld. 

„Við bregðumst við í seinni hálfleik og breytum um leikkerfi. Þá finnst mér við komast aftur inn í leikinn og gerðum það nokkuð vel og svo náttúrlega skora þeir bara „screamer“. Við fáum tvö eða þrjú færi. En hvað á maður að segja. Kannski bara meistaraheppni? Maður veit það ekki,“ sagði Óttar Bjarni, svekktur í leikslok. 

Skagamenn voru afar aftarlega í leiknum. Það var ætlunin allan tímann að sögn Óttars.

„Já, já. Við ætluðum bara að vera svolítið leiðinlegir við þá. Við vissum alveg að við myndum fá einhver færi og gerðum það alveg. Mögulega fórum við aðeins of neðarlega en mér fannst þeir samt ekki ná að skapa neitt. Mér fannst þetta ganga vel þar til þeir skoruðu þetta mark úr aukaspyrnu. En jú, vissulega var dagsskipulagið að þétta raðirnar og fá þá til þess að bregðast aðeins við,“ sagði Óttar Bjarni.

ÍA hefur 25 stig í 8. sæti deildarinnar og er þremur stigum frá 4. sætinu sem gæti gefið farseðil í Evrópukeppni í lok móts.

„Við ætlum að fá níu stig af níu. Svo sjáum við bara til hvað verður og hvar við endum. Það þýðir ekki að pæla of mikið í þessu,“ sagði Óttar Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert