Úr Latabæ á Landsmót

Sigurður Valur hannaði sögusviðið í Latabæ.
Sigurður Valur hannaði sögusviðið í Latabæ. mbl.is/Þóra Birna

Sigurður Valur teiknari er staddur á Landsmóti með bás þar sem hann býður hestamönnum að senda sér myndir af sínum uppáhaldsfákum, sem hann svo teiknar fríhendis á ógnarhraða, en Sigurður kveðst aldrei hafa hitt teiknara sem getur teiknað jafn hratt og hann.

„Dóttir mín er hestakona og tamningakona, hún fékk þessa hugmynd og ég reyndi heillengi að koma mér út úr þessu, en nú er ég feginn a ég gerði það ekki.

Sigurður hefur átt langan feril í teikningum, komið að auglýsingagerð, haldið listasýningar og svo tók hann þátt í því að þróa sögusviðið og hanna sviðsmyndina í þáttunum Latabæ, ásamt Magnúsi Sceving.

Teiknarinn er með bás á Landsmóti.
Teiknarinn er með bás á Landsmóti. mbl.is/Þóra Birna

Karakter í hrossum

„Það hefur alltaf verið ástríða hjá mér að teikna mannslíkamann. Þegar þú gerir það þá tengist þú manneskjunni tilfinningaböndum og skynjar karakterinn. Þannig get ég dregið fríhendis fram tilfinningarnar og aðstæðurnar og líkamstjáninguna og alla þessa hluti. Svo yfirfæri ég þetta á hross.Þá verður það sterkara, dýnamískara og meira sannfærandi."

Hann kveðst sjá mikinn karakter i hrossunum sem hann teiknar og mikilvægt sé að láta það skila sér í teikninguna.

Sigurður hafði ekki gefið sig út fyrir að teikna hross á fyrri árum ferilsins, en það kom honum á óvart hvað það reyndist skemmtilegt og í raun líkt því að teikna mannslíkamann.

Skein í gegnum afkvæmin

„Fyrsta skipti sem ég fór að teikna hross þá var ég að teikna fyrir sýningu um stóðhestinn Hrafn í Holtsmúla.

Á þeim tíma var Hrafn fallinn frá en lét eftir sig glæsilegan hóp afkvæma og þótti raunar svo merkilegur að hann var stoppaður upp.

Fékk Sigurður þá myndir af afkvæmum hans og gat þannig séð karaktereinkenni Hrafns skína í gegnum þau. Þá fyrst tókst honum að teikna stóðhestinn með þeim hætti sem hann vildi.

Hér má sjá verk eftir hann.
Hér má sjá verk eftir hann. mbl.is/Þóra Birna
mbl.is