„Fátt jafnast á við andann í okkar liði“

Íslenski hópurinn sem gerði strandhögg í Jönköping hjá hinum sænsku …
Íslenski hópurinn sem gerði strandhögg í Jönköping hjá hinum sænsku um helgina. Aðstoðarmenn með á mynd auk Laufeyjar Agnarsdóttur sem er borgaralega klædd lengst til vinstri en hún þreytti og stóðst próf sem alþjóðlegur dómari um helgina. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

Gunnar Ragnarsson hafnaði í dag í öðru sæti af tveimur í -66 kg flokki á NM í kraftlyftingum unglinga í Jönköping. Gunnar er 16 ára og keppir í „sub junior“-flokki, 18 ára og yngri.

Lyfti Gunnar 172,5 kg í hnébeygju og bætti þar með Íslandsmetið í aldursflokknum um heil 20 kg. Þá lyfti hann 102,5 kg í bekkpressu og jafnaði þar með sinn besta árangur og í réttstöðunni fóru 192,5 kg upp. Þar með bætti Gunnar metið í samanlagðri þyngd í flokknum um 10 kg.

Gunnar Ragnarsson á pallinum. Hann bætti Íslandsmetið í hnébeygju í …
Gunnar Ragnarsson á pallinum. Hann bætti Íslandsmetið í hnébeygju í aldursflokknum um 20 kg og metið í samanlögðu um 10 kg. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

Við Gunnari skinu þrjú hvít ljós í öllum lyftum, sem sagt allar voru þær gildar að mati allra þriggja dómaranna. „Þá er fyrsta erlenda mótið mitt búið og það fór frábærlega, gæti ekki hafa farið betur. Nú stefni ég á Íslandsmeistaramótið og að taka þar Íslandsmetin í bekk og réttstöðu,“ segir Gunnar af Svíþjóðarförinni.

Auk keppenda sem mbl.is fjallaði um í gærkvöldi keppti stærsti hluti íslenska hópsins í gær.

Emil Grettir Grettisson keppti þá í -120 kg flokki. Emil er fæddur 2003 og er á sínu fyrsta ári í unglingaflokki. Hann hafnaði í fimmta sæti af fimm keppendum og lyfti 220 kg í hnébeygju, 137,5 kg í bekkpressu og 245 kg í réttstöðulyftu.

„Allir dagar góðir – bara misgóðir“

„Þetta er án efa skemmtilegasta keppnisferð sem ég hef farið í, mér fannst þessi dagur bara ganga svakalega vel þótt ég næði ekki neinum metum en mér hefði ekki gengið svona vel hefði ég ekki verið með svona góða aðstoðarmenn,“ segir Emil.

Þá keppti Gabríel Ómar Hafsteinsson einnig í -120 kg flokki og náði þar þriðja sætinu en Gabríel á eitt ár eftir í unglingaflokki. Lyfti hann 245 kg í hnébeygju, 150 í bekk og 267,5 í réttstöðulyftu og náði þar með 662,5 kg í samanlögðu.

Gabríel á pallinum lengst til hægri, í baksýn vinstra megin …
Gabríel á pallinum lengst til hægri, í baksýn vinstra megin eru Samúel Máni og Emil Grettir. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

„Þetta var hrikalega skemmtilegt mót, mikið tempó enda keppt á tveimur völlum,“ segir Gabríel. „Mjög skemmtilegt líka að hitta keppendur frá hinum löndunum. Það eru allir dagar góðir, misgóðir bara, en þessi var einn af þeim betri. Við erum kannski minnsta þjóðin en fátt jafnast á við andann í okkar liði. Ég hafði væntingar um aðeins betri árangur en svona dagar geta einmitt verið þeir lærdómsríkustu,“ segir Gabríel og er klárlega leitun að öðrum eins íþróttaanda á Norðurlöndum um þessar mundir.

Þakklátur fyrir að keppa á NM

Eggert Gunnarsson keppti í -105 kg flokki sem var gríðarlega sterkur flokkur á þessu móti. Hann varð að gera sér að góðu níunda sætið af níu keppendum að þessu sinni en státar af tveimur persónulegum bætingum, í hnébeygju þar sem hann lyfti 215 kg og bætti sig um 2,5 og í réttstöðu þar sem hann bætti sig um sömu þyngd og lyfti 245 kg. Bekkurinn endaði í 147,5 sem er jafnt besta árangri Eggerts fram að þessu.

Þetta er enginn varamannabekkur. Gabríel og Eggert vígreifir.
Þetta er enginn varamannabekkur. Gabríel og Eggert vígreifir. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

„Það er gríðarlega gaman að keppa erlendis,“ segir Eggert vígreifur, „ég er mjög þakklátur fyrir að keppa á Norðurlandamótinu. Ég ætlaði mér aðeins meira í dag en þetta er mjög góð reynsla,“ segir Eggert.

Í +120 kg flokki steig Samúel Máni Guðmundsson á pall og varð í öðru sæti af tveimur keppendum. Samúel er tvítugur og keppir nú á sínu fyrsta alþjóðlega móti en hann á þrjú ár eftir í unglingaflokki. Samúel hóf upp 227,5 kg í hnébeygju, 137,5 kg í bekkpressu og 240 kg í réttstöðulyftu.

Samúel Máni á silfurpallinum, hann keppti á sínu fyrsta alþjóðlega …
Samúel Máni á silfurpallinum, hann keppti á sínu fyrsta alþjóðlega móti um helgina. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

„Þetta er búið að vera æðisleg ferð,“ segir Samúel, „að fara til útlanda með vinum sínum og taka á því? Já! Einn af bestu dögum lífs míns.“

Andri Fannar Aronsson keppti bara í bekkpressu í gær, enda guðsgreinin eins og margir innvígðir kalla hana og ætti kannski ekki að þurfa á keppni að halda í neinu öðru sé að marka það. Andri keppti í -74 kg flokki, lyfti 115 kg og varð í öðru sæti af tveimur keppendum. Var hann 2,5 kg frá sínum besta árangri í þessari lyftu. Andri er fæddur 2006 og keppir í „sub junior“-flokki.

Andri Fannar Aronsson á palli annars sætis, hann keppti bara …
Andri Fannar Aronsson á palli annars sætis, hann keppti bara í bekkpressu, var ekki alveg sáttur í þetta sinn en mjög ánægður með mótið. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

„Þetta var hrikalega skemmtilegt mót og mjög mikil stemmning en ég er samt smá ósáttur með útkomuna á lyftunum mínum þar sem ég náði bara léttri 115 kg opnunarlyftu og klikkaði tvisvar á 120 vegna tækni. En þetta er fyrsta erlenda mótið mitt og ég nýti það bara í lærdóm,“ segir Andri Fannar.

Alvar Logi Helgason keppti í -93 kg flokki og bætti sig um hvorki meira né minna en tæp 70 kg í samanlögðu. Lyfti hann 222,5 kg í hnébeygju, 147,5 í bekkpressu og 270 í réttstöðulyftu.

Keppti á sínu fyrsta alþjóðlega móti

„Það er heiður að fá að keppa fyrir Íslands hönd. Ég vil þakka öllum sem hjálpuðu mér í gegnum þetta skemmtilega ævintýri. Þetta er fjórða mótið mitt síðan ég byrjaði í kraftlyftingum og ég náði lágmörkum á EM og HM,“ segir Alvar Logi sáttur. Hann varð í sjöunda sæti af átta keppendum.

Pedro Miguel Oliveira og Alvar Logi Helgason bláklæddir. Pedro kallar …
Pedro Miguel Oliveira og Alvar Logi Helgason bláklæddir. Pedro kallar mótið frábæra reynslu og Alvar bætti sig um tæp 70 kg. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

Þá keppti Pedro Miguel Oliveira í -74 kg flokki og lyfti þar 180 kg í hnébeygju, 120 í bekk og 222,5 í réttstöðulyftu, 522,5 í samanlögðu og þar með lágmarki náð til keppni á EM. Pedro hafnaði í fjórða sæti af fimm.

„Ég keppti á mínu fyrsta alþjóðlega móti í dag. Frábær reynsla að keppa með þessum magnaða hópi og þótt síðasta lyftan í bekknum hafi klikkað hjá mér er ég yfir mig ánægður,“ segir Pedro.

Íslensku keppendurnir 13 sem tóku á stálinu í gömlu eldspýtnaborginni …
Íslensku keppendurnir 13 sem tóku á stálinu í gömlu eldspýtnaborginni Jönköping um helgina og snúa heim reynslunni ríkari, margir með pening um háls. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands

Síðast en alls ekki síst má geta þess að Íslendingar eignuðust nýjan alþjóðlegan dómara um helgina þegar Laufey Agnarsdóttir kraftlyftingakona, sem getið hefur sér góðan orðstír í keppni, stóðst próf sem alþjóðadómari með glæsibrag.

Lýkur þar með annálum af NM í kraftlyftingum unglinga í Svíþjóð um helgina en mótið verður haldið í Noregi á næsta ári og á Íslandi 2024.

Klaus Brostrøm frá Danmörku var prófdómari þegar Laufey Agnarsdóttir þreytti …
Klaus Brostrøm frá Danmörku var prófdómari þegar Laufey Agnarsdóttir þreytti og stóðst með æðsta láði próf til alþjóðlegs dómara í kraftlyftingum um helgina. Ljósmynd/Hinrik Pálsson/Kraftlyftingasamband Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert