Formaður GA hættir og vantrausti vísað frá

Sigmundur Ófeigsson, fráfarandi formaður Golfklúbbs Akureyrar.
Sigmundur Ófeigsson, fráfarandi formaður Golfklúbbs Akureyrar. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Aðalfundur Golfklúbbs Akureyrar var haldinn í félagsheimili klúbbsins að Jaðri í kvöld, en fullt var út úr dyrum á fundinum enda hefur mikið gustað um klúbbinn síðustu vikur. Nýr formaður var kosinn á fundinum.

Eins og mbl.is greindi frá í desember var golfkennaranum Sturlu Höskuldssyni sagt upp störfum, en Sturla sakaði þá GA um að reka sig fyrir að segja formanninn, Sigmund Ófeigsson, óþolandi að vinna með. Vildi Sturla að nýr formaður yrði kosinn á aðalfundi, sem upphaflega átti að fara fram í desember en var frestað þar til í kvöld.

Þegar mbl.is leitaði viðbragða hjá Sigmundi á sínum tíma við ummælum Sturlu greindi formaðurinn frá trúnaðarbresti á milli stjórnar og Sturlu sem golfkennara. Samkvæmt heimildum mbl.is á Sturla að hafa stofnað lokaðan Facebook-hóp þar sem hann kannaði grundvöll fyrir því að lýsa yfir vantrausti á stjórn klúbbsins.

„Við reyndum að ræða við hann en hann vill bara losna við stjórnina og fá að ráða. Stjórnin var einhuga um það að hún myndi ekki starfa undir þessu,“ sagði Sigmundur þá meðal annars við mbl.is.

Viðtal mbl.is við Sigmund vakti gríðarlega athygli innan raða GA og kröfðust félagsmenn með undirskriftarsöfnun að haldinn yrði félagsfundur til þess að ræða málin. Boðað var til fundarins 13. desember síðastliðinn og samkvæmt heimildum mbl.is var mikill hiti á þeim fundi, svo ekki sé meira sagt.

Steig til hliðar til að skapa frið

Í kvöld var svo komið að aðalfundinum sem var afar fjölmennur eins og áður sagði. Þegar Sigmundur flutti skýrslu stjórnarinnar tilkynnti hann um leið að hann ætlaði að stíga til hliðar sem formaður. Sagðist hann vilja með því skapa frið innan klúbbsins, sem ekki ætti að skiptast í fylkingar.

Síðar á fundinum var borin upp vantrausttillaga á stjórn GA, en fundarstjóri vísaði henni frá þar sem slíkt væri ekki í samræmi við lög klúbbsins. Ekki væri hægt að skipta út stjórn á einu bretti. Í kjölfarið var Bjarni Þórhallsson svo kjörinn nýr formaður GA, en ekkert mótframboð barst.

Á fundinum í kvöld var að auki kosið um ritara þar sem Sigurður Skúli Eyjólfsson mun halda áfram, en aðrir stjórnarmenn eru á seinna ári sínu af tveimur eftir að hafa verið kosnir til tveggja ára á síðasta aðalfundi.

Sigmundur, fráfarandi formaður, sagði við mbl.is í desember að stefnt væri að því að ráða nýjan golfkennara sem allra fyrst, en ekki hefur verið tilkynnt um það. Ekki er vitað á þessari stundu hvort möguleiki sé á því að Sturla verði endurráðinn með tilkomu nýs formanns.

Uppfært: Undir lok aðalfundar í kvöld kom fram tillaga um að leggja til við nýkjörna stjórn að ráða Sturlu aftur í starf golfþjálfara. Þá kom fram tillaga um að vísa þeirri tillögu frá og var frávísunartillagan samþykkt með talsverðum meirihluta.

Af þeim viðurkenningum sem veittar voru á fundinum má nefna að kylfingur ársins var valin Andrea Ýr Ásmundsdóttir, en hún var meðal annars Íslandsmeistari í sínum aldursflokki og valin í unglingalandsliðið. Þá hlaut Jón Gunnar Traustason viðurkenningu, en hann varð Íslandsmeistari í flokki 50 ára og eldri og keppti með landsliði 50 ára og eldri á EM.

Háttvísisbikarinn hlaut svo ungur og efnilegur kylfingur, Patrik Róbertsson.

mbl.is