Spieth efstur á 66 höggum

Jordan Spieth vippar inn á 18. flötina.
Jordan Spieth vippar inn á 18. flötina. AFP

Bandaríkjamaðurinn Jordan Spieth er efstur að loknum fyrsta keppnisdegi af fjórum á Masters, fyrsta risamóti ársins hjá körlunum í golfinu. Spieth lék Augusta National völlinn á 66 höggum sem er sex undir pari. 

Spieth kann einstaklega vel við sig á Augusta en hann er yngsti sigurvegari í sögu mótsins og var þá aðeins 21 árs. Þrátt fyrir að vera einungis 24 ára hefur hann einnig tvívegis hafnað í 2. sæti á mótinu. Og nú tók hann strax forystuna og hefur tveggja högga forskot. 

Hinn reyndi Matt Kuchar lék á 68 höggum sem og Tony Finau sem komst í fréttirnar í gær þegar hann missteig sig illa í fagnaðarlátum. Hann hafði þá farið holu í höggi í par 3 mótinu sem er hluti af upphitun fyrir Masters. Finau lék með teipaðan ökkla í dag á sínu fyrsta Mastersmóti. 

Sjö kylfingar léku á 69 höggum og í þeim hópi voru Henrik Stenson, Rory McIlroy, Patrick Reed og Rafa Cabrera Bello. McIlroy og Stenson slógu báðir afar vel og virtust líklegir til afreka í mótinu. 

Gamla brýnið Phil Mickelson lék á 70 og á góða möguleika á því að blanda sér í baráttuna. Hann yrði sá elsti í sögu mótsins til að sigra ef honum tækist það. Annar fyrrverandi sigurvegari á mótinu Zach Johnson var á 70 sem og Rickie Fowler. 

Skor annarra þekktra kylfinga: 

Vijay Singh 71.

Fred Couples 72, Justin Rose 72, Tommy Fleetwood 72, Charl Schwartzel 72.

Tiger Woods 73, Bubba Watson 73, Dustin Johnson 73, Hideki Matsuyama 73.

Paul Casey 74.

Jason Day 75, Adam Scott 75, Jon Rahm 75.

Sergio Garcia 81.

Rory McIlroy var sannfærandi í dag. Masters er eina risamótið …
Rory McIlroy var sannfærandi í dag. Masters er eina risamótið sem hann hefur ekki unnið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert