Viljum skipta ef við finnum betri þjálfara

Stefán Árnason.
Stefán Árnason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við sögðum Stefáni bara það að stjórnin væri að velta fyrir sér þeim möguleikum sem í boði væru,“ segir Magnús Matthíasson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss.

Stefán Árnason, þjálfari karlaliðs félagsins, staðfesti það við mbl.is í fyrrakvöld að stjórnin hygðist freista þess að finna annan þjálfara fyrir næsta tímabil.

Stefán stýrði Selfossi upp í úrvalsdeild í fyrra og til 5. sætis í Olís-deildinni í vetur. Liðið féll svo út í 8 liða úrslitum gegn Aftureldingu. Sá árangur ætti líklega að teljast viðunandi en Magnús segir félagið vilja kanna hvaða þjálfarar bjóðist. Eins undarlega og það kann að hljóma útilokar stjórnin hins vegar ekki að gera nýjan samning við Stefán skili leitin ekki árangri, og segir Magnús að stjórnin hafi gefið sér tvær vikur í leitina.

Stefán sagði í samtali við mbl.is að stjórnin hefði kallað sig á fund og tjáð sér að hún vildi skoða hvort hægt væri að finna „stærra nafn“ til að þjálfa liðið, eins og Stefán orðaði það:

„Það er bara ekki rétt,“ segir Magnús. „Við sögðum við hann að mögulega myndum við skipta um þjálfara ef við fengjum betri þjálfara. Þetta er ekkert spurning um nöfn. Við erum með mjög sterkan leikmannahóp, unga leikmenn sem þyrstir í þekkingu, og það er ekkert óeðlilegt að við veltum fyrir okkur hvort við getum tekið næsta skref með einhverjum öðrum þjálfara,“ segir Magnús, sem vill ekki tjá sig um það hvaða þjálfara Selfoss sé með til skoðunar eða hvort viðræður við ákveðinn þjálfara hafi átt sér stað.

Sjá allt viðtalið við Magnús í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag