Aron sér fyrir sér framtíðar landsliðsmenn

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. Eggert Jóhannesson

„Ég er gríðarlega spenntur og hef saknað þessa, þó það sé ekki það langt síðan ég var með,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, við mbl.is í dag en hann verður í eldlínunni með Íslandi gegn Japan á morgun í síðasta vináttuleik landsliðsins hér á landi fyrir EM í Króatíu sem hefst síðar í mánuðinum.

„Það er gaman að fá að spila við Japan, maður fær ekki að spila á móti slíkum andstæðingi á hverjum degi. Og það að mæta Degi er mjög gaman og gott að fá leik í Höllinni líka. Við höfum æft vel og mætum klárir í þann leik,“ sagði Aron, en Dagur Sigurðsson er þjálfari Japans.

Eftir leikinn á morgun heldur liðið til Þýskalands og mætir Þjóðverjum tvívegis fyrir EM, en það er ljóst að síðustu andstæðingarnir fyrir stórmótið eru ansi ólíkir.

„Já algjörlega. Þetta er kannski ekki líkt liðunum sem við munum mæta á EM, en við hugsum bara um okkur og hvað við viljum gera bæði í vörn og sókn. Við ætlum að horfa sem minnst á þá heldur bara á okkur og svo kemur bara í ljós á morgun hvernig þeir bregðast við. En það má búast við mörgu.“

Sem fyrr segir mætir íslenska landsliðið því japanska á morgun, en daginn eftir mætir Japan svonefndum Afrekshópi HSÍ sem er skipaður leikmönnum úr Olís-deildinni sem hafa bankað á landsliðsdyrnar. Á það að brúa betur bilið sem er á milli yngri landsliða og A-landsliðsins. Hvað finnst Aroni um slíkan hóp, er betur haldið utan um unga leikmenn í dag en þegar Aron var að koma fram á sjónarsviðið fyrir um áratug?

Aron Pálmarsson í landsleik gegn Portúgal.
Aron Pálmarsson í landsleik gegn Portúgal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afrekshópurinn skilar sér vonandi í landsliðið

„Þeir æfa yfirleitt á undan okkur og ég vona að þetta muni skila einhverju. Ég trúi ekki öðru og sýnist að menn séu mjög ánægður með þetta. Þetta brúar bilið aðeins að taka stökkið inn í landsliðið og þarna er verið að kenna mönnum sömu kerfin og landsliðið notar. Ég finn það líka á þeim að þeir þurfa ekki mikinn tíma til að átta sig á hlutunum. Það er líka flott að fá leiki fyrir þá og er mjög ánægður með þetta,“ sagði Aron og býst við því að í hópnum leynist menn sem munu spila við hlið hans í landsliðinu í framtíðinni.

„Algjörlega. Augljóslega eru þetta þeir sem eru næstir inn í landsliðið enda ungir strákar en lykilmenn í deildinni heima. Þetta eru framtíðar landsliðsmenn, en það er langur vegur. Þeir eru komnir í afrekshóp en það er stórt stökk að koma svo inn á EM eða HM. Ég vona það hins vegar að þetta geri þá aðeins tilbúnari þegar kallið kemur.“

Margir landsliðsmenn hafa snúið heim á síðustu árum og talað hefur verið um að deildin hér heima hafi aldrei verið jafn sterk. En Aron tekur undir að það sé ekki nóg til þess að landsliðið geti haldið dampi sínum á alþjóðavísu.

„Nei það er það ekki og því miður. Ég hef reynt að fylgjast vel með deildinni í vetur og það eru fínustu gæði, en það er bara það mikill munur [á henni og landsliðinu]. Við viljum vera meðal bestu tíu þjóða í Evrópu og viljum halda okkur þar. Við getum ekki gert þær kröfur á deildina hérna heima, svo það er ennþá stökk upp í landsliðið. En Afrekshópurinn brúar vonandi aðeins það bil,“ sagði Aron Pálmarsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert