Valsmenn aftur í toppsætið

Ýmir Örn Gíslason skýtur að marki ÍR í kvöld. Sveinn …
Ýmir Örn Gíslason skýtur að marki ÍR í kvöld. Sveinn Jóhannsson fylgist með. mbl.is/Eggert

Valur fór aftur á toppinn á Olísdeild karla í handbolta með 33:28-sigri á ÍR á útivelli í kvöld í hröðum og afar skemmtilegum handboltaleik. 

Valsmenn voru skrefinu á undan í fyrri hálfleik og náðu tveggja marka forystu í fyrsta skipti á áttundu mínútu, 6:4. Valsmenn héldu hægt og rólega að bæta í forskotið og að lokum munaði fjórum mörkum þegar flautað var til hálfleiks, 20:16.

Eins og tölurnar gefa til kynna var leikurinn mjög hraður og sóknarleikur í aðalhlutverki. Lítið var um varnarleik og lítið meira um markvörslu.

Magnús Óli Magnússon var sterkur í sókninni hjá Val, en ekki eins sterkur og Björgvin Hólmgeirsson hjá ÍR. Björgvin skoraði níu mörk í fyrri hálfleik og var eina ástæða þess að munurinn var ekki mun meiri í hálfleik.

Valsmenn skoruðu þrjú af fyrstu fjórum mörkum seinni hálfleiksins og komust í 23:17. ÍR minnkaði hins vegar muninn aftur í fjögur mörk skömmu síðar. Heimamenn minnkuðu muninn í tvö mörk þegar seinni hálfleikur var rúmlega hálfnaður, 26:24. 

Nær komust ÍR-ingar ekki og Valsmenn voru sterkir á síðustu mínútunum. Magnús Óli Magnússon átti afar góðan leik fyrir Val og skoraði 12 mörk og Björgvin Hólmgeirsson var langbestur hjá ÍR með 11 mörk. 

ÍR 28:33 Valur opna loka
60. mín. Sveinn Aron Sveinsson (Valur) skoraði mark
mbl.is