„Hugsaði bara um að bomba á markið“

Elvar Örn Jónsson í leiknum í Skopje í kvöld.
Elvar Örn Jónsson í leiknum í Skopje í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

Elvar Örn Jónsson skoraði jöfnunarmark Íslands með föstu skoti fyrir utan punktalínu á lokasekúndunum í Skopje í kvöld þegar Norður-Makedónía og Ísland gerðu jafntefli 24:24 í undankeppni EM í handknattleik. 

„Það var mjög gott að sjá hann fara í netið. Ég fékk boltann og hugsaði bara um að bomba á markið. Vissi ekki hvar ég myndi hitta markið. Aron [Pálmarsson] dregur oftast tvo menn í sig og þá opnast gjarnan glufa fyrir mann,“ sagði Elvar þegar mbl.is heyrði í honum hljóðið í kvöld en Elvar skoraði fimm mörk í leiknum. 

Í landsliðshópnum eru menn sáttir við jafnteflið í kvöld en súrir yfir tapinu í Laugardalshöllinni á miðvikudaginn. „Mér finnst þetta vera gott stig sem við náðum hérna í Skopje. Við klúðruðum leiknum heima svolítið sjálfir með því að spila ekki nógu vel í vörninni. En í kvöld fannst mér vörnin gríðarlega góð og sóknin einnig fyrir utan kafla þar sem við brenndum af nokkrum dauðafærum í fyrri hálfleik. Á heildina litið var frammistaðan mjög góð hjá okkur. Við hefðum auðvitað viljað vinna og áttum fulla möguleika á því. Maður er smá svekktur yfir því en eitt stig hérna er mjög sterkt.“

Elvar er í stóru hlutverki bæði í vörn og sókn. Hann segir mikla orku fara í að verjast stæðilegustu mönnum N-Makedóna. „Þeir spila mjög langar sóknir. Að standa á móti þessum mönnum og berjast við línumennina tekur rosalega á. Auk þess eru þeir með heimsklassamann fyrir utan í Lazarov sem er afar klókur leikmaður. Þeir ná að hanga lengi á boltanum og ná stundum að skora þegar þeir hafa verið nánast tvær mínútur í sókn. Það er erfitt að spila svona leiki og því þarf mikla þolinmæði í vörninni,“ sagði Elvar sem blóðgaðist í fyrri hálfleik og var hugað að honum. Sagði hann það ekki vera neitt til að velta sér upp úr. Hann hafi einfaldlega lent í gólfinu og fengið blóðnasir sem þurfti að stöðva. „Ég skallaði gólfið í hraðaupphlaupi og fékk blóðnasir. Þetta var bara klaufalegt hjá mér,“ sagði Elvar og hló. 

Aron Pálmarsson, Arnór Þór Gunnarsson, Janus Daði Smárason, Teitur Örn …
Aron Pálmarsson, Arnór Þór Gunnarsson, Janus Daði Smárason, Teitur Örn Einarsson, Elvar Örn Jónsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson, Arnar Freyr Arnarsson, Ágúst Elí Björgvinsson og Ólafur Gústafsson hlýða á þjóðsönginn. Ljósmynd/Robert Spasovski
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert