„Hugsaði bara um að bomba á markið“

Elvar Örn Jónsson í leiknum í Skopje í kvöld.
Elvar Örn Jónsson í leiknum í Skopje í kvöld. Ljósmynd/Robert Spasovski

Elvar Örn Jónsson skoraði jöfnunarmark Íslands með föstu skoti fyrir utan punktalínu á lokasekúndunum í Skopje í kvöld þegar Norður-Makedónía og Ísland gerðu jafntefli 24:24 í undankeppni EM í handknattleik. 

„Það var mjög gott að sjá hann fara í netið. Ég fékk boltann og hugsaði bara um að bomba á markið. Vissi ekki hvar ég myndi hitta markið. Aron [Pálmarsson] dregur oftast tvo menn í sig og þá opnast gjarnan glufa fyrir mann,“ sagði Elvar þegar mbl.is heyrði í honum hljóðið í kvöld en Elvar skoraði fimm mörk í leiknum. 

Í landsliðshópnum eru menn sáttir við jafnteflið í kvöld en súrir yfir tapinu í Laugardalshöllinni á miðvikudaginn. „Mér finnst þetta vera gott stig sem við náðum hérna í Skopje. Við klúðruðum leiknum heima svolítið sjálfir með því að spila ekki nógu vel í vörninni. En í kvöld fannst mér vörnin gríðarlega góð og sóknin einnig fyrir utan kafla þar sem við brenndum af nokkrum dauðafærum í fyrri hálfleik. Á heildina litið var frammistaðan mjög góð hjá okkur. Við hefðum auðvitað viljað vinna og áttum fulla möguleika á því. Maður er smá svekktur yfir því en eitt stig hérna er mjög sterkt.“

Elvar er í stóru hlutverki bæði í vörn og sókn. Hann segir mikla orku fara í að verjast stæðilegustu mönnum N-Makedóna. „Þeir spila mjög langar sóknir. Að standa á móti þessum mönnum og berjast við línumennina tekur rosalega á. Auk þess eru þeir með heimsklassamann fyrir utan í Lazarov sem er afar klókur leikmaður. Þeir ná að hanga lengi á boltanum og ná stundum að skora þegar þeir hafa verið nánast tvær mínútur í sókn. Það er erfitt að spila svona leiki og því þarf mikla þolinmæði í vörninni,“ sagði Elvar sem blóðgaðist í fyrri hálfleik og var hugað að honum. Sagði hann það ekki vera neitt til að velta sér upp úr. Hann hafi einfaldlega lent í gólfinu og fengið blóðnasir sem þurfti að stöðva. „Ég skallaði gólfið í hraðaupphlaupi og fékk blóðnasir. Þetta var bara klaufalegt hjá mér,“ sagði Elvar og hló. 

Aron Pálmarsson, Arnór Þór Gunnarsson, Janus Daði Smárason, Teitur Örn ...
Aron Pálmarsson, Arnór Þór Gunnarsson, Janus Daði Smárason, Teitur Örn Einarsson, Elvar Örn Jónsson, Sigvaldi Björn Guðjónsson, Arnar Freyr Arnarsson, Ágúst Elí Björgvinsson og Ólafur Gústafsson hlýða á þjóðsönginn. Ljósmynd/Robert Spasovski
mbl.is