Ég datt bara í gírinn

Haukur Þrastarson sækir að Adam Hauki Baumruk og Daníel Þór …
Haukur Þrastarson sækir að Adam Hauki Baumruk og Daníel Þór Ingasyni leikmönnum Hauka í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Sé tekið mið af mikilvægi leiksins þá var þetta að minnsta kosti með skemmtilegri leikjum sem ég hef tekið þátt í,“ sagði hetja Selfoss-liðsins, Sölvi Ólafsson markvörður, þegar Selfoss vann Hauka, 27:22, í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í kvöld í Schenker-höllinni í Hafnarfirði. Sölvi varði 26 skot og sló öll vopn úr höndum Hauka þegar þeir höfðu jafnað metin og komist marki yfir skömmu fyrir leikslok.

„Þegar ég hafði varið fjögur eða fimm fyrstu skotin þá datt ég bara inn í gírinn eða rytma þar sem maður þarf ekkert að hugsa of mikið. Þá er eins maður bíði bara eftir boltanum. Vörnin vann líka mjög með því að þvinga leikmenn Hauka oft og tíðum í erfið skot þótt vissulega hafi á stundum komið erfiðari skot á markið,“ sagði Sölvi sem hefur átt mjög vaxandi leiki í úrslitakeppninni eftir að hafa átt erfitt uppdráttar lengi vel í vetur.

„Við megum heldur ekki gleyma því að menn náðu fráköstunum í vörninni og tókst einnig nokkrum sinnum að stela boltanum af leikmönnum Hauka. Allt hjálpar þetta,“ sagði Sölvi sem varði þrjú vítaköst.

Sölvi sagði leikmenn Selfoss vera með báða fætur á jörðinni. Sigurinn í kvöld dugir ekki einn og sér til þess að vinna Íslandsmeistaratitilinn.  „Við þurfum að vinna þrjá leiki. Keppnin er löng. Næst er að núllstilla og skerpa línurnar í leik okkar fyrir næstu viðureign,“ sagði Sölvi Ólafsson, markvörður Selfoss og hetja liðsins í sigrinum á Ásvöllum í kvöld.

mbl.is