Mæta Ísrael í mars

Ísland fagnar sigri á Litháen í undankeppninni.
Ísland fagnar sigri á Litháen í undankeppninni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland mætir Ísrael í undankeppni EM karla í handbolta 13. eða 14. mars á næsta ári. Þjóðirnar áttu að mætast í byrjun nóvember en leiknum var frestað þar sem ísraelska liðið komst ekki hingað til lands vegna útgöngubanns.

EHF greindi frá í morgun og í tilkynningu frá HSÍ er ákvörðuninni fagnað og vonir standa til að hægt verði að leika fyrir framan áhorfendur. Hinsvegar er óljóst hvort hægt verði að leika í Laugardalshöll þar sem gólf hallarinnar skemmdist illa á dögunum.

Ísland leikur næst við Portúgal 6. og 10. janúar og fer fyrri leikurinn fram ytra og sá síðari hér á landi. Ísland, Ísrael, Portúgal og Litháen eru í riðlinum og gefa tvö efstu sætin sæti á EM. Þá fara einnig þær þjóðir sem eru með bestan árangur í þriðja sæti á lokamótið.

mbl.is