Vissi ekki að svona fáar hefðu náð 100 leikjum

Rut Jónsdóttir í landsleik.
Rut Jónsdóttir í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rut Arnfjörð Jónsdóttir lék tímamótalandsleik í Svíþjóð á fimmtudag eins og fram hefur komið og á nú að baki 100 A-landsleiki. Sá 101. bætist væntanlega við á móti Serbum á Ásvöllum á morgun.

„Ég er ótrúlega stolt og ánægð að hafa náð þessum áfanga. Ég vissi ekki að það væru svona fáar konur sem hefðu náð þessu. Ég vissi svo sem að það væri farið að styttast í 100. leikinn. Ég hef einnig gaman af því að hafa náð að spila með mörgum þeirra sem hafa náð þessum áfanga. Mér finnst alltaf vera mikill heiður að spila fyrir Íslands hönd,“ sagði Rut þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hennar í gær þegar hún var stödd ásamt íslenska hópnum á Arlanda-flugvellinum í Stokkhólmi.

Svíþjóð vann Ísland 30:17 í fyrsta leik liðanna í undankeppni Evrópumótsins. Þótt úrslitin hafi ekki verið góð segist Rut ánægð með að tímamótaleikurinn hafi verið mótsleikur á móti einu besta liði í heimi.

„Mér fannst gaman að ganga inn á völlinn. Full höll, flott umgjörð og andstæðingurinn sterkt lið. Vonandi var það aukahvatning fyrir ungu leikmennina okkar að upplifa þetta andrúmsloft í undankeppni. Vonandi hvetur þetta þær frekar til að reyna að komast á þennan stað sem Svíar eru um þessar mundir. Mér finnst skemmtilegt að vera með þessum stelpum í landsliðinu því þær leggja mikið á sig og eru hæfileikaríkar.“

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert