Magnaður sigur Gróttu á Haukum

Akimasa Abe hjá Gróttu í baráttu við Ólaf Ægi Ólafsson …
Akimasa Abe hjá Gróttu í baráttu við Ólaf Ægi Ólafsson hjá Haukum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Grótta hafði naumlega betur gegn Haukum, 25:24, í Olísdeild karla í handknattleik í kvöld í æsispennandi leik.

Grótta var með tögl og hagldir í fyrri hálfleik og náði mest sex marka forystu, 11:5, eftir rúmlega 20 mínútna leik.

Haukar náðu að laga stöðuna með fjórum mörkum í röð, 11:9, en Grótta náði aftur vopnum sínum og leiddi með fjórum mörkum í leikhléi, 15:11.

Til að byrja með náðu heimamenn í Gróttu að halda í forskotið en í kjölfar þess að hafa komist í 19:15 óx Haukum ásmegin.

Um miðjan síðari hálfleikinn voru Haukar nefnilega búnir að jafna metin í 21:21 og náðu svo forystunni í fyrsta sinn í leiknum þegar tæpar tíu mínútur lifðu leiks, 23:22.

Haukar voru tveimur mörkum yfir, 24:22, þegar skammt var eftir, en með ótrúlegri endurkomu þar sem Grótta skoraði þrjú síðustu mörk leiksins tókst Seltirningum að knýja fram eins marks sigur.

Ágúst Emil Grétarsson skoraði í blálokin fyrir Gróttu áður en Haukar reyndu skot af miðjunni en það geigaði.

Nokkurrar óvissu gætti hvort Haukar hefðu eina sekúndu til viðbótar þar sem vallarklukkan stoppaði þegar ein sekúnda var eftir eftir að Ásgeir Örn Hallgrímsson hafði tekið leikhlé.

Að vandlega athuguðu máli var það metið sem svo að hann hafi náð að taka leikhlé í tæka tíð. Haukar fengu því annað tækifæri en skot Stefáns Rafns Sigurmannssonar af miðju var varið af Einari Baldvin Baldvinssyni í marki Gróttu.

Markahæstur hjá Gróttu var Jakob Ingi Stefánsson með tíu mörk.

Einar Baldvin varði þá 15 skot og var með 39,5% markvörslu.

Guðmundur Bragi Ástþórsson fór á kostum í liði Hauka og skoraði 11 mörk.

Magnús Gunnar Karlsson varði sjö af þeim 17 skotum sem hann fékk á sig, sem er rúmlega 41% markvarsla.

Með sigrinum fór Grótta upp fyrir Hauka og í 8. sæti deildarinnar þar sem liðið er með átta stig.

Haukar eru hins vegar í 10. sæti með sjö stig.

Mörk Gróttu: Jakob Ingi Stefánsson 10, Hannes Grimm 4, Akimasa Abe 2, Ágúst Emil Grétarsson 2, Birgir Steinn Jónsson 2, Theis Koch Sondergard 1, Daníel Örn Griffin, Jóel Bernburg 1, Þorgeir Bjarki Davíðsson 1.

Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 15.

Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 11, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Stefán Rafn Sigurmannsson 2, Geir Guðmundsson 2, Heimir Óli Heimisson 1, Andri Fannar Elísson 1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1.

Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 7, Matas Pranckevicius 2.

mbl.is