Mikil viðurkenning fyrir Guðjón Val

Guðjón Valur Sigurðsson
Guðjón Valur Sigurðsson mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðjón Valur Sigurðsson var í dag útnefndur þjálfari ársins í þýsku 1. deildinni í handbolta. Guðjón var einnig útnefndur þjálfari ársins í 2. deildinni á síðustu leiktíð, er hann stýrði Gummersbach upp í efstu deild.

Liðinu hefur vegnað vel á sínu fyrsta tímabili í efstu deild, því Gummersbach er í tíunda sæti með 32 stig eftir 33 leiki. Var liðið aldrei í fallbaráttu á tímabilinu, þrátt fyrir að vera nýliði í deildinni.

Gummersbach er fyrsta liðið sem Guðjón Valur þjálfar, en hann var einn ástsælasti landsliðsmaður Íslands, áður en skórnir fóru á hilluna. Eyjamennirnir Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson eru leikmenn Gummersbach.

„Liðið sýndi snemma að það myndi ekki falla úr deildinni og er sem stendur í tíunda sæti í sterkustu deild heims. Leikmenn eins og Julian Köster og Dominik Mappes hafa bætt sig undir stjórn Guðjóns.

Liðið bætti ekki miklu við sig, en eru með marga unga leikmenn og spila aðlaðandi handbolta, með íslensku ívafi. Vörnin er sterk og það er mikill hraði í leiknum,” segir m.a. um Guðjón í yfirlýsingu sem deildin sendi frá sér við valið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert