Ýmir samdi við Göppingen

Ýmir Örn Gíslason í leik með íslenska landsliðinu.
Ýmir Örn Gíslason í leik með íslenska landsliðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ýmir Örn Gíslason, landsliðsmaður í handknattleik, hefur samið við þýska félagið Göppingen um að leika með liðinu frá og með næsta sumri. 

Þetta tilkynnti félagið á heimasíðu sinni í morgun.

Ýmir Örn gengur til liðs við Göppingen frá Rhein-Neckar Löwen að loknu yfirstandandi tímabili, þegar samningur hans við Ljónin rennur út.

Hann gekk til liðs við Löwen í febrúar árið 2020 frá uppeldisfélaginu Val og lýkur því tæplega fjögurra og hálfs árs veru hans hjá félaginu næsta sumar.

Ýmir Örn varð bikarmeistari með Löwen í apríl síðastliðnum þegar liðið hafði betur gegn Íslendingaliði Magdeburg eftir æsispennandi úrslitaleik.

Göppingen leikur í 1. deild í Þýskalandi líkt og Löwen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert