Rússar fóru illa með Bandaríkjamenn

Ilya Kovalchuk skoraði í tvígang er Rússar fóru ansi illa …
Ilya Kovalchuk skoraði í tvígang er Rússar fóru ansi illa með erkióvinina frá Bandaríkjunum. AFP

Rússneska landsliðið í íshokkí, sem að vísu leikur undir hlutlausum fána á mótinu, skellti gamla erkióvininum frá Bandaríkjunum, 4:0-á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í dag.

Nikolai Prokhorkin og Ilya Kovalchuk skoruðu sitthvor tvö mörkin er Rússar unnu yfirburðarsigur gegn þessum gömlu fjendum sínum, en þeir rússnesku voru einfaldlega mikið grimmari og miklu betri í leiknum.

Þó að einvígið í dag hafi verið háð án pólitísku aukafléttunnar sem einkenndi „kraftaverkið á ísnum“ árið 1980 og hátíðarbragsins er Vladimir Putin, forseti Rússlands, var viðstaddur sem áhorfandi á heimavelli 2014, var engu að síður rafmagnað andrúmsloft í Gangneung höllinni í dag.

Áhorfendur létu vel í sér heyra og kom meira að segja til minniháttar stimpinga þeirra á milli og enn harðar var barist á ísnum. Bandaríkjamenn voru tilbúnir að berjast með oddi og eggi á öllum sviðum, nema í íshokkí og var það þeim að falli. Þrátt fyrir að eiga aragrúa af skotum var aldrei reynt af neinu viti á Vasily Koshechkin í marki Rússa.

Hinumegin á vellinum varð Ryan Zapolski að játa sig sigraðan fjórum sinnum en hann fékk á sig 26 skot.

Þess ber að  geta að bandaríska liðið er án sinna bestu leikmanna úr NHL-deildinni sem gaf ekki leikmönnum sínum frí til að spila á Ólympíuleikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert