Deildin er eitt stórt spurningarmerki

Ólöf Helga Pálsdóttir varð Íslands- og bikarmeistari með Njarðvík árið …
Ólöf Helga Pálsdóttir varð Íslands- og bikarmeistari með Njarðvík árið 2012 og spilaði þá með Lele Hardy sem er aðstoðarþjálfari hennar hjá Haukum. mbl.is/Golli

„Ég bjóst alveg við þessari spá. Þetta er eiginlega nákvæmlega það sem ég bjóst við. En ég hef trú á að við getum komið á óvart,“ segir Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfari kvennaliðs Hauka í körfubolta. Íslandsmeisturunum er spáð 6. sæti í Dominos-deildinni í vetur.

Það kann að hljóma furðulega að Íslandsmeisturum sé spáð 6. sæti en Haukar hafa meðal annars misst besta leikmann landsins, Helenu Sverrisdóttur, sem farin er til Ungverjalands í atvinnumennsku á nýjan leik:

„Það er líka svakalegur missir í Dýrfinnu [Arnardóttur]. Ég er fegin að hafa fengið Lele Hardy sem ég þekki mjög vel og er mjög góður leikmaður. Hún er reyndar aðeins meidd núna en ég vona að hún verði komin í gott stand fljótlega. Ég fékk líka Bríeti [Lilju Sigurðardóttur] úr Skallagrími og Evu [Margréti Kristjánsdóttur] úr leyfi, og þær smella mjög vel inn í liðið. Þær eru ekki eins stór nöfn og þær sem fóru en ég hef fulla trú á þeim og okkar liði,“ segir Ólöf Helga, sem spilaði með Hardy í Njarðvík á sínum tíma. Hardy er spilandi aðstoðarþjálfari hjá Haukum.

Haukar eru Íslandsmeistarar en hafa meðal annars misst Helenu Sverrisdóttur …
Haukar eru Íslandsmeistarar en hafa meðal annars misst Helenu Sverrisdóttur og Dýrfinnu Arnardóttur frá síðustu leiktíð. mbl.is/Hari

Margt virðist óljóst fyrir keppnistímabilið í vetur og vandi að spá um hvernig deildin muni þróast. Ólöf Helga, sem tók við Haukum í sumar eftir að hafa þjálfað Grindavík í 1. deild, tekur undir þetta:

„Málið við deildina í ár er að hún er eitt stórt spurningarmerki. Ég get ekki beðið eftir að byrja. Það er opið núna á að fá fleiri útlendinga, liðin hafa breyst töluvert og það verður gaman að fylgjast með. Ég held að ég hafi aldrei verið svona spennt áður, kannski er það vegna þess að nú er ég þjálfari, en ég er líka spennt fyrir karladeildinni og held að þetta verði geggjaður vetur.“

Haukar mæta KR í Schenker-höllinni í kvöld þegar 1. umferð Dominos-deildarinnar fer fram. Valur og Skallagrímur mætast, Breiðablik og Snæfell, og Keflavík og Stjarnan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert