Tveir nýliðar í landsliðshópnum

Hilmar Smári Henningsson er nýliði í landsliðshópnum.
Hilmar Smári Henningsson er nýliði í landsliðshópnum. mbl.is/Árni Sæberg

Þjálfarar landsliðs karla í körfuknattleik hafa nú valið sitt lokalið fyrir Smáþjóðaleikana 2019 sem hefjast 28. maí í Svartfjallalandi.

Finnur Freyr Stefánsson, fyrrverandi þjálfari KR-inga, hefur verið þjálfari liðsins í undirbúningnum og verður aðalþjálfari liðsins á mótinu og aðstoðarþjálfari hans Baldur Þór Ragnarsson, sem nýlega yfirgaf Þór Þorlákshöfn og er tekinn við þjálfun Tindastóls.

Landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen á ekki heimangengt í verkefnið en hefur tekið þátt í undirbúningnum með þjálfurum sínum og því verða Finnur Freyr og Baldur Þór með liðið á leikunum líkt og fyrir tveim árum.

Talsverð forföll eru í hópnum. Marg­ir leikmenn eru meidd­ir eða gefa ekki kost á sér fyr­ir utan þá staðreynd að at­vinnu­menn­irn­ir eru enn á fleygi­ferð með sín­um fé­lagsliðum. 

Ísland leikur gegn landsliðum Möltu, Lúxemborg og Svartfjallalands fyrstu keppnisdagana 28.-30. maí. Frídagur verður þann 31. maí og svo er lokaleikur liðsins 1. júní gegn liði Kýpur.

Í liðinu nú eru tveir nýliðar í lokahópnum. Það eru þeir Hilmar Smári Henningsson frá Haukum og Halldór Garðar Hermannsson frá Þór Þorlákshöfn, sem munu leika sínu fyrstu landsleiki með landsliði karla.

Landsliðshópurinn er þannig skipaður:

Elvar Már Friðriksson · Njarðvík (38)

Dagur Kár Jónsson · Raiffeisen Flyers Wels, Austurríki (2)

Gunnar Ólafsson · Keflavík (10)

Hilmar Smári Henningsson · Haukar (Nýliði)

Halldór Garðar Hermannsson · Þór Þorlákshöfn (Nýliði)

Kristinn Pálsson · Njarðvík (9)

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson · Nebraska, USA/KR (5)

Ólafur Ólafsson · Grindavík (28)

Breki Gylfason · Appalachian State, USA (2)

Hjálmar Stefánsson · Haukar (8)

Sigurður Gunnar Þorsteinsson · ÍR (54)

Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Valur (40)

mbl.is