Málið litið alvarlegum augum

Hannes segir gæsluna hafa vísað einum áhorfenda úr húsi í …
Hannes segir gæsluna hafa vísað einum áhorfenda úr húsi í hálfleik og hafi setið hjá nokkrum öðrum sem verið höfðu með læti. mbl.is/Eggert

Ásthild­ur Jón­as­dótt­ir, formaður körfuknatt­leiks­deild­ar Hatt­ar, sagði í samtali við mbl.is að forsvarsmenn félagsins telji sig vita hvaða hópur einstaklinga átti í hlut þegar bjórdós var kastað af áhorfendapöllum Laugardalshallar á meðan undanúrslitaleikur Hattar og Vals stóð yfir á miðvikudag.

Samkvæmt upplýsingum frá Körfuknattleikssambandi Íslands virðist vera að skotmarkið hafi verið varamannabekkur Vals. Dósin hitti ekki varamannabekkinn en lenti á fyrirstöðu, þaðan sem hún skoppaði og lenti á höfði barns í hópi stuðningsmanna Vals. Barnið slapp til allrar hamingju án alvar­legra meiðsla en var eðli málsins samkvæmt skelkað.

Ásthildur sagði um þriggja manna hóp stuðningsmanna að ræða sem bæði eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu og fyrir austan.

„Ef okkur tekst að hafa upp á þeim fá þeir tækifæri til að gera grein fyrir máli sínu en við lítum málið að sjálfsögðu alvarlegum augum og ef við teljum okkur þurfa að meina þeim aðgang þá gerum við það. Vísar Ásthildur þá til þess að gripið verði til einhvers konar banns. Við viljum ekki vera bendluð við svona lagað og hörmum þetta atvik.“

Matej Karlovic, leikmaður Hattar í leiknum á miðvikudag.
Matej Karlovic, leikmaður Hattar í leiknum á miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásthildur sagði þetta í fyrsta skiptið sem Höttur kemst þetta langt í bikarkeppni og að það hafi 500 manns fylgt liðinu sem félagið er afskaplega þakklátt fyrir.

„Sá stuðningur er ómetanlegur en félagið getur ekki stjórnað því hverjir kaupa miða. Félagið hefur ekkert að gera með gæslumál en þau eru í höndum KKÍ. Að þessir þrír aðilar skuli þurfa að skemma upplifun annarra finnst okkur mjög slæmt.“

Eitt og eitt skemmt epli hef­ur áhrif á alla

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, segir að því miður geti verið skemmd epli inn á milli. Hann segir að ákveðið hafi verið að taka gæslumálin upp á næsta stig fyrir úrslitaleikinn á morgun.

„Laugardalshöll leyfir þrjá faglega gæsluaðila í höllinni og einn af þeim aðilum sinnir gæslu fyrir okkur. Það er þaulreyndur aðili sem hefur sinnt gæslu um margra ára skeið en því miður getur svona lagað komi upp. Við höfum farið yfir málið með okkar fólki og gæslan verður færð upp á næsta stig. Við munum láta leita á fólki og drykkjarföng verða opnuð fyrir fólk. Þá munum við ekki hika við að vísa fólki úr húsi ef á þarf að halda. Körfuknattleikssamband Íslands líður þetta ekki.“

Hannes segir gæsluna hafa vísað einum áhorfenda úr húsi í hálfleik og hafi setið hjá nokkrum öðrum sem verið höfðu með læti. Hann segir gæsluna hafa metið það sem svo að það myndi skapa enn meiri læti að vísa fleirum á dyr.

Hannes segir að ef til dæmis sambærilegt mál kæmi upp á morgun verði hlutaðeigandi að sjálfsögðu vísað úr húsi og ef ekki verði hægt að sannreyna hver eða hverjir ættu í hlut verði einfaldlega stærri hópi vísað úr húsi. Ef slíkar ráðstafanir dugi ekki verði húsið einfaldlega rýmt.

Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands.
Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands. Ljósmynd/KKÍ

„Það er algjörlega óásættanlegt að stuðningsmenn hagi sér með þessum hætti. Ég veit að forsvarmenn Hattar harma þetta mjög og við skulum hafa það alveg á hreinu að þetta mál hefur ekkert með körfuknattleiksdeild Hattar að gera því áhorfendur eru á eigin ábyrgð á þessum leikjum.

Þetta kemur inn á það sem ég hef oft sagt að við erum öll fyrirmyndir og við eigum ekki að haga okkur með þessum hætti. Við eigum að styðja við liðin okkar og hafa gaman af þegar við mætum á svona leiki en fúkyrði, dónaskapur og hvað þá ofbeldi eins og þetta er ekki liðið. Eitt og eitt skemmt epli hefur áhrif á alla sem koma að viðburðinum.“

Hannes segir Körfuknattleikssambandið ekki vita hver eða hverjir áttu í hlut en sagði jafnframt að þó sambandið hefði upplýsingar um slíkt væri erfitt að grípa til aðgerða á borð við einhvers konar banns frá viðburðum því það sé ekki einfalt að framfylgja slíku banni inn í framtíðina.

„Það er örugglega hægt að nýta tæknina eitthvað í þessu sambandi en það er eitthvað sem við þurfum bara að skoða. Við þurfum að setjast yfir þessi mál af fagmennsku og ró og ekki taka einhverjar ákvarðanir í flýti í þeim anda sem er.“

Við eigum hvert og eitt að vera fyrirmyndir

Hannes segir sambandið slegið yfir því að áhorfendur á Íslandi skuli haga sér svona. Það á enginn að mæta á íþróttaviðburð eða annan viðburð með það í huga að meiða einhvern annan eða slasa. Við í íþróttahreyfingunni þurfum að taka almennt betur upp hjá okkur. Við höfum ekki séð bullumenningu hér á Íslandi eins og víða erlendis. Íslenskir áhorfendur hafa yfirleitt fengið mikið hrós fyrir sína framkomu hvar sem þeir koma.

Við höfum tilkynnt þeim félögum sem eiga í hlut á morgun, með tölvupósti, hvaða ráðstafana verður gripið til varðandi aukaöryggisgæslu á morgun.

„Við hörmum þetta mjög, okkur þykir afar leitt að þetta skyldi koma upp og við lítum þetta mjög alvarlegum augum.“

Hannes vill að lokum biðja fólk að hugsa hvernig það hagar sér sem einstaklingar í garð starfsmanna leiksins með orðfæri og öðru.

„Við eigum hvert og eitt að vera fyrirmyndir. Það eru börn í kringum okkur. Það eru aðrir í kringum okkur. Við eigum hvert og eitt okkar að vera fyrirmyndir í leik og starfi,“ segir Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands.

Auknar ráðstafanir í gæslumálum í Laugardalshöll í bikarúrslitaleikjum í körfubolta:

  1. Fleiri gæslumenn verða til staðar á leikstað.
  2. Ekki verður heimilt að koma með flöskur, dósir, ílát eða annað sem getur valdið skaða á leikstað.
  3. Allir drykkir sem seldir eru í sjoppu verða opnaðir áður en þeir eru afhentir, þannig að dósir verða opnaðar og tappar teknir af flöskum við sölu.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar brýnir sýna menn í leiknum …
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar brýnir sýna menn í leiknum á miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is