Bjarni: Græddi ekki á staðsetningunni

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Benediktsson, fjármála og efnahagsráðherra, segist ekki hafa grætt á því að félag sem hann átti þriðjungshlut í hafi verið skráð á Seychelles-eyjum frekar en á öðrum stað í heiminum. Hann hafi fyrir misskilning gefið upp að félagið væri skráð í Lúxemborg. Þetta segir hann í samtali við mbl.is.

Í yfirlýsingu sem Bjarni birti á Facebook í gær segist hann að hafa staðið í þeirri trú að félagið, Falson & Co., ætti varnaþing í Lúxemborg en misskilningurinn hafi ekki áhrif í skattalegu samhengi.

Þá sagði hann einnig að eini tilgangur fé­lags­ins hafi verið að halda utan um eign í Dubai en að svo hafi farið að hann og viðskipta­fé­lagi hans hafi aldrei tekið við henni. Ákveðið hafi verið að ganga út úr kaup­un­um árið 2008 og árið 2009 hafi málið verið gert upp með tapi og fé­lagið sett í af­skrán­ing­ar­ferli.

„Það hafði eng­ar tekj­ur, skuldaði ekk­ert, tók aldrei lán, átti eng­ar aðrar eign­ir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starf­semi. Við gildis­töku reglna um hags­muna­skrán­ingu þing­manna átti ég því hvorki hlut í fé­lagi í at­vinnu­rekstri né aðrar fast­eign­ir en hús­næði til eig­in nota,“ sagði Bjarni í yfirlýsingunni.

Gaf Lúxemborg upp fyrir misskilning

Hvernig getur verið að þú hafir ekki vitað af staðsetningu félagsins?

„Það sem ég hef sagt frá er að þarna var um að ræða kaup á fasteign í Dubai. Áður en ég kem að málinu hafði verið komið upp félagi. Ég kom ekki að stofnun félagsins og augu mín voru fyrst á fjárfestingunni sem slíkri, ekki kannski á þessu fyrirkomulagi sem hafði verið ákveðið áður en ég kom að málinu. Þetta er bara þannig en kaupin á félaginu, jú, komu fram á minni skattskýrslu,“ segir Bjarni.

Mátti sjá á upplýsingum á skattskýrslunni að félagið væri ekki í Lúxemborg?

„Það sem ég geri grein fyrir í minni skattskýrslu er fjárhæðin sem ég hef varið til kaupanna, heitið á félaginu og fyrir misskilning gaf ég það upp að félagið væri skráð í Lúxemburg, eins og ég hef sagt frá,“ segir Bjarni.

„Það er allt tilkomið vegna þess að Landsbankinn í Lúxemburg hafði komið félaginu á fót og það var búið að ganga frá öllum þeim formsatriðum þegar ég kom að málinu.“

Þú nefndir í yfirlýsingunni að þú hefðir verið spurður um málið í Kastljósinu í febrúar 2015 og sagðist aðspurður ekki hafa átt neinar eignir eða viðskipti í skattaskjólum. Kannaðir þú það sérstaklega fyrir eða eftir viðtalið til að hafa þetta á hreinu?

„Nei, ég gerði það ekki. Það var ekki tilefni til þess fyrir þetta viðtal. Það verður líka að skoða málin í því samhengi sem var verið að ræða málin í 2015. Við vorum á þeim tíma að vinna í því að afla upplýsinga vegna hættunnar á því að fólk hefði skotið skattskyldum tekjum eða eignum undan skattlagningu á Íslandi. Þegar ég er spurður að því hvort ég hafi stundað eitthvað slíkt þá er svarið við því ósköp einfalt, það er alls ekki þannig,“ segir Bjarni.

„Þegar spurt er sérstaklega að því hvort ég hafi átt eignarhlut í félagi á svokölluðu aflandssvæði þá gerði ég mér ekki grein fyrir því að, eins og ég er búin að segja, gerði mér ekki grein fyrir því að þetta félag sem ég hafði átt í fram til ársins 2009, að það hefði verið skráð á slíku svæði. Það hafði enga þýðingu í sjálfu sér,“ segir Bjarni.

Er hægt að segja að þú hafir grætt á því að hafa þetta félag þarna, á Seychelles-eyjum, frekar en annarsstaðar?

„Nei, ekki á neinn hátt.“

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir