Ósnortnu víðernin eru eins og gullnáma

„Það þarf að klára í eitt skipti fyrir öll heildstæða …
„Það þarf að klára í eitt skipti fyrir öll heildstæða stefnumótun fyrir greinina,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. mbl.is/RAX

„Samtök ferðaþjónustunnar eru lifandi og kraftmikil hagsmunasamtök fyrirtækja í ferðaþjónustu. Hátt í 400 fyrirtæki eru innan raða samtakanna, bæði stór og smá fyrirtæki í öllum geirum ferðaþjónustunnar um land allt,“ segir Bjarnheiður Hallsdóttir, sem var nýlega kjörin formaður samtakanna og hefur um árabil verið framkvæmdastjóri Kötlu DMI. Hún tók við embættinu af Grími Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins.

Afar mjótt var á mununum í formannsslagnum. Í formannskjörinu atti hún kappi við tvo mótframbjóðendur, þá Þóri Garðarsson, stjórnarformann Gray Line, og Margeir Vilhjálmsson, framkvæmdastjóra bílaleigunnar Geysis. Áður hafði Róbert Guðfinnsson dregið framboð sitt til baka. Af um 70 þúsund greiddum atkvæðum munaði aðeins 72 atkvæðum á Bjarnheiði og Þóri. Þannig hlaut hún 44,72% greiddra atkvæða en Þórir 44,62%. Margeir hlaut 10,65%.

Bjarnheiður segir að það hafi verið jákvætt hve margir buðu sig fram. „Það hefur ekki áður gerst að fleiri en tveir hafi verið í framboði til formanns Samtaka ferðaþjónustunnar. Þetta endurspeglar aukið vægi greinarinnar og því er frábært hve margir frambærilegir hafa áhuga á að leggja hönd á plóg. Sömu sögu er að segja af stjórnarkjörinu. Mikill áhugi var fyrir stjórnarsetu í samtökunum. Fleiri buðu fram krafta sína en sem nemur stjórnarsætum sem voru í boði. Átta voru framboði um 4 stjórnarsæti sem kjörið var um að þessu sinni, en alls skipa stjórnina 6 manns auk formanns.“

Brennandi áhugi

Spurð hvers vegna hún hafi boðið sig fram í embætti formanns Samtaka ferðaþjónustunnar, segir Bjarnheiður að hún hafi brennandi áhuga á málefnum ferðaþjónustunnar. „Ég hef unnið við fagið í 30 ár, allt frá því ég var í námi. Alla tíð hef ég haft mikinn áhuga á uppbyggingu ferðaþjónstunnar, þróun hennar og framgangi, og stjórnmálum sem eru alltumlykjandi í starfinu. Þetta hefur verið mitt helsta áhugamál árum saman. Samtökin fagna 20 ára afmæli síðar á árinu og ég hef frá upphafi tekið virkan þátt í starfinu, þótt ég hafi ekki áður setið í stjórn samtakanna. Ég þekki því starfsemina nokkuð vel. Mér þykir gaman að hafa áhrif og gera eitthvað sem skiptir máli. Ég tel að ég geti lagt mitt af mörkum.“

Stofnaði Kötlu í Þýskalandi

Bjarnheiður lærði stjórnun ferðaþjónustufyrirtækja í München í Þýskalandi. Samhliða námi starfaði hún hjá þýsku fyrirtæki við að selja Íslandsferðir. „Í náminu kynntist ég Pétri Óskarssyni. Árið 1997 ákváðum við að stofna saman Kötlu Travel München í Þýskalandi, sem er enn starfrækt þar í landi og er með tólf manns í vinnu. Fáeinum árum síðar stofnuðum við Kötlu DMI á Íslandi sem einnig er með tólf starfsmenn. Katla Travel í München er ferðaheildsali sem selur bæði ferðaskrifstofum og einstaklingum ferðir til Íslands. Fyrirtækið á Íslandi skipuleggur ferðir fyrir Kötlu Travel München og fjölda annarra þýskra ferðaskrifstofa.“

Bjarnheiður: Atvinnugreinin er þjóðarbúskapnum gríðarlega mikilvæg og því þurfum við …
Bjarnheiður: Atvinnugreinin er þjóðarbúskapnum gríðarlega mikilvæg og því þurfum við að marka stefnu um hvert við viljum fara. Í slíkri stefnumörkun kæmi fram hvernig uppbyggingu ferðamannastaða og innviða yrði háttað, hvernig haga skuli umhverfisvernd, rannsóknum og menntun. mbl.is/RAX

Á meðal ferða sem Katla DMI skipuleggur eru hringferðir um landið á bílaleigubílum og rútuferðir fyrir hópa. „Ferðamenn bóka bíl og gistingu hjá okkur sem við höfum valið. Þeir fá leiðarlýsingu með alls kyns fróðleik og tillögur að stöðum til að skoða. Rútuferðirnar eru yfirleitt vika með leiðsögumanni. Margir kjósa að nýta sér þessa þjónustu því þá losna viðskiptavinir við að eyða miklum tíma í að finna gistingu, veitingastaði, áhugaverða staði til skoða og fleira.“

Stefnumótun fyrir greinina

Bjarnheiður tiltekur nokkur mál sem ferðaþjónustan setur á oddinn. „Það þarf að klára í eitt skipti fyrir öll heildstæða stefnumótun fyrir greinina. Margoft hefur sú vegferð verið hafin á vegum hins opinbera en þeirri vinnu hefur ekki verið fylgt eftir sem skyldi. Það þarf að ljúka þessari vinnu á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála þar sem stjórnvöld, Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt Samtökum ferðaþjónustunnar taka höndum saman í mikilvægum forgangsverkefnum er snúa að greininni. Ferðaþjónusta er burðaratvinnugrein og það þarf að meðhöndla hana sem slíka.

Atvinnugreinin er þjóðarbúskapnum gríðarlega mikilvæg og því þurfum við að marka stefnu um hvert við viljum fara. Í slíkri stefnumörkun kæmi fram hvernig uppbyggingu ferðamannastaða og innviða yrði háttað, hvernig haga skuli umhverfisvernd, rannsóknum og menntun. Þá kæmi slík stefnumörkum einnig inn á heilbrigðiskerfið þar sem ferðamenn þurfa að geta gengið að góðri heilbrigðisþjónustu um land allt. Í raun má líta á ferðaþjónustu sem tækifæri fyrir heilbrigðiskerfið, þar sem ferðamenn greiða fullt gjald fyrir þjónustuna. Snertifletirnir eru nánast við allt samfélagið.

Við þurfum að binda enda á umræðuna um gjaldtöku af ferðamönnum sem hefur verið ítrekað haldið á lofti undanfarin ár. Fyrir fáeinum árum stóð til að ferðamenn yrðu að kaupa náttúrupassa og nú er stefnt að því í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að leggja komugjöld á flugfarþega árið 2020. Gjaldtakan mun leiða til þess að verð á Íslandsferðum hækkar. Komugjöldin myndu leggjast jafnt á ferðamenn sem Íslendinga, og ég tel að það myndi falla í grýttan jarðveg. Það myndi sömuleiðis þurfa að leggja komugjöld á innanlandsflugið vegna Evrópskrar reglugerðar sem hér er í gildi. Það er því að mörgu að huga.

Það er útbreidd skoðun innan ferðaþjónustunnar að ferðamenn leggi nú þegar nóg af mörkum til hins opinbera. Mikilvægt er að skoða þá skatta og gjöld sem ferðamenn greiða nú þegar í heildrænu samhengi, áður en ákvörðun verður tekin um frekari gjaldheimtu. Í fyrra er áætlað að beinar tekjur hins opinbera, þ.e. ríkisins og sveitarfélaga, að frátöldum kostnaði hafi numið 65 milljörðum króna. Það er há fjárhæð. Og að gjaldeyristekjur þjóðarbúsins af ferðaþjónustu hafi numið 503 milljörðum króna, sem eru 42% af gjaldeyristekjum þjóðarinnar,“ segir hún.

Stóra-Hafró

Bjarnheiður fagnar hugmyndum ferðamálaráðherra um að koma á fót rannsóknarstofnun fyrir ferðaþjónustuna. „Það vantar gögn og rannsóknir til þess að hægt sé að taka skynsamlegar ákvarðanir til lengri tíma. Við þurfum áreiðanlegar tölur um fjölda ferðamanna, gistinætur, útgjöld, dvalarlengd og almenna ferðahegðun. Einnig upplýsingar um markaðina, þróun þeirra og svo auðvitað lykiltölur um rekstrarafkomu fyrirtækja og tekjur ríkis og sveitarfélaga, svo eitthvað sé nefnt. Þolmarkarannsóknir eru þar að auki mjög mikilvægar fyrir framtíðaruppbyggingu. Allar þessar rannsóknir þarf að gera með reglubundnum hætti, til að hægt sé að fylgjast með þróun á milli tímabila. Ráðherra hefur talað um slíka rannsóknarstofnun sem Litlu-Hafró. Ferðaþjónustan er orðin stærri atvinnugrein en sjávarútvegur og því væri nær að tala um Stóru-Hafró.“

Ferðamenn við Skógafoss.
Ferðamenn við Skógafoss. mbl.is/RAX

Það þurfi enn fremur að ríkja félagsleg sátt um ferðaþjónustuna hér á landi. „Íslendingar þurfa að lifa í sátt og samlyndi með ferðaþjónustunni. Án sáttar er erfitt að halda áfram að byggja upp ferðaþjónustu. Ef gestrisnin, sem við erum þekkt fyrir, fer að láta undan síga vegna pirrings út í ferðamenn, sem er aðeins farið að bera á á örfáum stöðum á landinu, er hætt við að ferðaþjónustunni muni fatast flugið,“ segir Bjarnheiður.

Að hennar sögn virðist óþols gæta einkum í miðbæ Reykjavíkur og afmörkuðum svæðum úti á landi, eins og Mývatni og Vík í Mýrdal. „Þar er mikið af ferðamönnum á litlu svæði. Það er mikilvægt að Íslendingar séu jákvæðir gagnvart ferðaþjónustunni því þeir eru hluti af ferðalaginu. Flestir ferðamenn vilja eiga í vinsamlegum samskiptum við hinn almenna Íslending – við starfsfólkið á bensínstöðinni og starfsfólkið í bakaríinu. Íslendingar hafa alla tíð verið góðir gestgjafar og þannig viljum við auðvitað hafa hlutina.“

Til að halda Íslendingum í liði með ferðaþjónustunni er t.d. hægt að benda á hvað ferðaþjónustan hafi gert fyrir land og þjóð og hve mikilvæg hún er efnahagslífinu. „Halda ber til haga að ferðaþjónustan bjargaði íslensku efnahagslífi úr djúpri kreppu eftir bankahrun. Það er henni að þakka að á undanförnum árum hefur verið mikill hagvöxtur og uppbygging í samfélaginu. Ferðaþjónustan hefur gert það að verkum að ný tækifæri hafa orðið til víða um land. Fjárfesting hefur aukist gríðarlega, sveitarfélög hafa eflst og rekstur þeirra víða snúist við til hins betra. Fólk hefur getað flutt aftur heim í byggðarlögin vítt og breitt um landið. Og miðbær Reykjavíkur iðar af lífi. Þar hefur sprottið upp fjöldi veitingastaða og önnur þjónusta sem rekja má með beinum hætti til aukins ferðamannastraums,“ segir Bjarnheiður.

Að hennar mati hafa ferðamannastaðir ekki verið undirbúnir nægilega vel fyrir komu ferðamanna. „Við bjóðum þeim að koma og skoða landið en höfum ekki tryggt að girðingar, göngustígar, merkingar, aðgangsstýringar og fleira sé með æskilegum hætti. Þetta er mikilvægt verkefni, bæði til að bæta upplifun ferðamanna og til að gæta að náttúrunni.“

Ríkið fjármagni ferðamannastaði

Hún segir að ríkið eigi að fjármagna uppbyggingu ferðamannastaða. „Eins og komið hefur fram hagnast hið opinbera um 65 milljarða af komu ferðamanna. Það er margsannað að fjárfesting í innviðum margborgar til baka. Uppbygging innviða er lykillinn að blómlegri ferðamennsku. Ferðamenn eiga að njóta dvalarinnar.“

Talið berst að ástandi gatnakerfisins. „Þekkt er að ástand vega er bagalegt. Það hefur verið vanrækt að fjárfesta í vegakerfinu frá bankahruninu. Við erum að súpa seyðið af því núna enda vegirnir meira og minna ónýtir víðast hvar á landinu. Það skapar vegfarendum hættu.“ Samkvæmt úttekt Samtaka iðnaðarins þarf að leggja 110-120 milljarða króna í vegakerfið til að koma því í gott horf. „Hefja þarf stórsókn í að efla vegakerfið okkar, það mun ekki bara nýtast ferðaþjónustunni heldur landsmönnum öllum,“ segir hún.

Bjarnheiður segir að sóknarfærin í ferðaþjónustunni liggi meðal annars í því að fara vel með náttúruna. „Náttúran er alltumlykjandi í ferðaþjónustu hér á landi. Hún er á við stærðarinnar gullnámu. Náttúran er án nokkurs vafa verðmætust ósnortin nú á dögum. Ósnortnu víðernin sem við eigum eru hvergi til lengur í Evrópu. Þar er búið að skipuleggja hvern einasta fermetra. Þetta er einstakt og verður að skoðast sem stór auðlind.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK