Fólk sæki pantanir svo hægt sé að opna

Eins og sjá má taka ósóttar pantanir mikið pláss við …
Eins og sjá má taka ósóttar pantanir mikið pláss við afgreiðslukassa verslunarinnar. Ljósmynd/IKEA

Verslun IKEA í Kauptúni verður opnuð á morgun í fyrsta sinn frá 23. mars. Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA, segir mikla tilhlökkun meðal starfsmanna að fá að færa starfsemina aðeins nær eðlilegu horfi.

Þrátt fyrir að verslun IKEA hafi verið lokuð síðustu vikur, hefur verið hægt að panta vörur á heimasíðu fyrirtækisins og sækja í verslun. Segir Stefán að margir hafi nýtt sér það, eins og sjá má af fjölda ósóttra pantana á mynd sem IKEA deildi á Facebook. Þar hvetja starfsmenn viðskiptavini til að sækja pantanirnar svo hægt sé að rýma fyrir opnun búðarinnar á morgun.

Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA.
Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA. Ljósmynd/Aðsend

Mikið lagt upp úr sóttvörnum

Miklar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja öryggi viðskiptavina og starfsmanna og uppfylla sóttvarnareglur. Versluninni hefur verið skipt upp í svæði og mega einungis 50 vera á hverju svæði. Munu starfsmenn fylgjast með fjölda á hverju svæði og telja inn og út úr versluninni. Þá hafa sérstök svæði þar sem fólk bíður í röðum verið merkt, bil aukið milli starfsmanns og viðskiptavinar á kössum og fleira.

Fyrst um sinn verður veitingastaður IKEA lokaður, en bakaríið á efri hæðinni og bistro, pylsu- og íssalan á neðri hæð, opin. Þá verður opnunartími styttri en venjulega. Opið verður frá 11 til 19 alla daga, í stað 21 áður, en Stefán segir að opnunartíminn verði endurskoðaður þegar reynsla fæst.

Töluvert högg

Þótt hægt hafi verið að panta vörur á netinu síðustu daga, segir Stefán að það hafi verið töluvert högg fyrir fyrirtækið að þurfa að loka.

„Við höfum ekki sagt neinum upp, en fórum með hluta af fólkinu í skert starfshlutfall og verðum með það áfram, til dæmis á veitingastaðnum,“ segir Stefán.  Fleiri starfsmenn komist þó í fullt starf nú þegar verslunin er opnuð á ný.

Spurður hve lengi forsvarsmenn fyrirtækisins geri ráð fyrir hömlum á starfsemi, segir hann það verða að koma í ljós. 

„Við gerum ráð fyrir að fjöldatakmarkanir verði miðaðar við 100 frá og með næsta mánuði, þannig að við munum þurfa að halda svæðaskiptingunni eitthvað áfram. Við reynum bara að spila þetta eftir aðstæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK