Tekur eitt til tvö ár að vinna sig úr vandanum

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Arnþór

Lágir vextir og lágt gengi ættu að skapa forsendur fyrir hröðum bata ferðaþjónustunnar hér á landi um leið og heimurinn hefur verið bólusettur við kórónuveirunni. Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra á nýársfundi Ferðaklasans, KPMG og Samtaka ferðaþjónustunnar í morgun.

Hann sagði að hinn mikli vöxtur í útflutningstekjum ferðaþjónustunnar á árunum 2014 til 2018 hafi verið forsendan fyrir hinni miklu lífskjarasókn á þessum tíma. Þess vegna hafi veirufaraldurinn verið gríðarlegt áfall fyrir landið. Þrátt fyrir það hafi heppnast vel að verja lífskjörin með vaxtalækkunum, gjaldeyrisinngripum og lágri verðbólgu.

Ferðamenn við Skógafoss í byrjun febrúar í fyrra.
Ferðamenn við Skógafoss í byrjun febrúar í fyrra. mbl.is/Rax

„Viðspyrna ferðaþjónustunnar eru lágir vextir og lágt gengi. Ef við höldum rétt á spöðunum erum við að horfa á lægri vexti til framtíðar,“ sagði Ásgeir en bætti við að það vanti fjárfestingar í innviðum. Íslendingar hafi verið komnir í vandræði þegar ferðamennirnir voru orðnir tvær milljónir því vegakerfið þoldi það ekki.

„Prísuðum“ okkur út af markaðnum

Hann bætti við að hagræðing þurfi að eiga sér stað innan ferðaþjónustunnar og í stað þess að einblína á vöxt þurfi að horfa betur á rekstur og virði. „Huti af þeim vanda sem ferðaþjónustan var lent í var að við vorum búin að „prísa“ okkur út af markaðnum,“ sagði hann og nefndi að Reykjavík hafi verið orðin ein dýrasta borg Evrópu. Vöxturinn hafi verið of hraður á of skömmum tíma.

Ásgeir minntist á vaxtalækkanir Seðlabankans og sagði gjaldeyrisforðann vera um 800 milljarða króna. „Með honum höfum við tryggt stjórn á þessu ástandi. Í fyrsta skipti í sögu peningastjórnarinnar höfum við náð að bregðast við áfalli af þessum toga með öflugum vaxtalækkunum,“ sagði hann og átti við kórónuveirufaraldurinn. Hann sagði krónuna vera verðlagða líkt og ferðaþjónustan sé í varanlegri lægð. Lágt gengi bæti samkeppnishæfni.

Ferðamenn á ferli í Reykjavík.
Ferðamenn á ferli í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Hann sagði ferðaþjónustuna mögulega á svipuðum stað og sjávarútvegurinn var við hrun þorskstofnsins árið 1988, sem varð tilefni til hagræðingar og mikillar sóknar í greininni í kjölfarið. „Við förum mögulega að sjá færri fyrirtæki í greininni og betur skipulögð og að einhverju leyti nýjar áherslur. Ferðaþjónustan er án efa framtíðaratvinnugrein. Það er tímaspursmál hvenær farsóttin verður gengin niður. Það er ekki þannig að allt muni blessast eða verða gott samstundis. Það mun taka eitt eða tvö ár að vinna sig út úr þessu,“ sagði hann.  

10% fyrirtækja í erfiðri stöðu

Á fundinum var greint frá niðurstöðum skoðanakönnunar frá því í síðustu viku á meðal fyrirtækja í ferðaþjónustu og svaraði 191 þeirra.

Fram kom að í fyrra voru aðeins 4% fyrirtækja með 100 starfsmenn eða fleiri. Til samanburðar voru þau 9% árið 2019. Áhrif Covid-19 endurspeglast einnig í samdrætti í veltu fyrirtækjanna. 9% þeirra voru með meira en milljarð króna í veltu í fyrra á móti 17% árið 2019.

Bjartsýni gætir í greininni. Til marks um það telja 48% að samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar muni styrkjast í ár. Varðandi hvaða þættir muni skipta mestu máli á þessu ári nefndu flestir framboð flugs til og frá landinu. Í öðru sæti á listanum voru gengismál, sem vermdu efsta sætið árið 2019.

Ferðamenn í Reykjavík.
Ferðamenn í Reykjavík. mbl.is/Hanna

Eitt prósent fyrirtækjanna sagðist líklega þurfa að hætta starfsemi en 92% sögðust munu halda sínu striki. 7% eru í sameiningarferli.

84% fyrirtækjanna töldu þörf á auknum aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að styrkja ferðaþjónustuna á Íslandi vegna Covid-19. Ákall var um að hraða stuðningsaðgerðum og umsóknarferlum í tengslum við þær.

53% fyrirtækjanna hafa sótt um greiðsluhlé hjá lánastofnunum vegna veirunnar. 10% þeirra eru í erfiðri stöðu og eru að vinna í sínum málum með lánastofnunum. 79% fyrirtækjanna hafa nýtt tímann síðasta árið til sérstakra verkefna á borð við endurskipulagningu rekstrar og viðhalds.

Flest fyrirtækin líta á Covid-19 og samkeppni annarra ríkja um ferðamenn sem helstu ógnirnar í ferðamennsku á þessu ári. Þegar horft er til ársins 2026 eru helstu ógnirnar taldar gengisþróun íslensku krónunnar ásamt þróun Covid-19 og annarra faraldra.

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK