Segir spurningu ráðherrans ekki óeðlilega

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.

„Auðvitað eru þessar tölur mjög háar en það má ekki gleyma því að bankarnir eru með mjög mikið eigið fé, og arðsemi íslenskra banka er kannski fyrst núna að komast á sama stað og arðsemi norrænna banka hefur verið í mörg ár.“

Þetta segir Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, í samtali við mbl.is þegar hann er spurður út í ummæli Lilju Alfreðsdóttur viðskiptaráðherra.

Hún sagðist í samtali við Morgunblaðið í dag telja að bankarnir eigi, í ljósi mikils hagnaðar, að létta undir með heimilum og fyrirtækjum sem horfa fram á hærri vaxtabyrði vegna vaxtahækkana Seðlabankans.

„Bankarnir eru að skila ofurhagnaði og hagnaður þeirra verður meiri í kjölfar stýrivaxtahækkana Seðlabanka Íslands. Ég tel að það eigi að nota þennan ofurhagnað til að greiða niður vexti fólksins í landinu,“ sagði Lilja.

Bankaskattur þegar við lýði

Inntur eftir viðbrögðum segir Benedikt að ef vilji sé til að nota vaxtabótakerfið, til að draga úr vaxtakostnaði heimila sem þurfa á því að halda, þá þurfi vitaskuld að fjármagna það. Það sé gert með sköttum.

„Þá er ekki óeðlileg spurning, eins og ráðherra veltir upp, hvort það eigi ekki að gera það með sérstökum sköttum.“

Lilja kvaðst telja samfélagslega ábyrgt af bankakerfinu og fjármálastofnunum að styðja við samfélagið á leið út úr faraldrinum. Betra væri að bankarnir færu að huga að heimilunum í landinu, „og ef bankarnir finna ekki einhverja lausn á því tel ég að við ættum að endurvekja bankaskattinn“.

Spurður út þetta bendir Benedikt á að þegar sé við lýði bankaskattur, upp á 14,5%.

„Það er hæsti bankaskattur sem fyrirfinnst í Evrópu. Þó hann hafi verið lækkaður þá er hann samt tvisvar til þrisvar sinnum hærri en víðast hvar. Auðvitað er þetta pólitísk ákvörðun en það þarf að setja þetta í samhengi,“ segir hann og heldur áfram:

„Íslenska hagkerfið er í samkeppni um fólk og fjármagn við önnur hagkerfi, og íslensk fyrirtæki eru að keppa við erlend fyrirtæki. Og það má ekki búa þannig um hnútana að samkeppnisstaða íslensku fyrirtækjanna og heimilanna sé verri en annars staðar, meðal annars með sértækum sköttum sem eru miklu hærri en gengur og gerist.“

Mikil samkeppni á markaði íbúðalána

Benedikt tekur einnig fram að aldrei fyrr hafi ríkt jafnmikil samkeppni á markaði um verðlagningu íbúðalána.

„Bankarnir eru búnir að veita mikið af íbúðalánum undanfarið en lífeyrissjóðirnir eru aftur, sjáum við, farnir að verðleggja sín íbúðalán þannig að þeir eru komnir í samkeppnishæfa stöðu. Skiptikostnaður er lágur og það er tiltölulega einfalt fyrir fólk að endurfjármagna. Ég held að allir séu á tánum alla daga við að viðhalda sínum viðskiptavinum og sækja nýja.“

Hann kveðst sannfærður um að verðlagning íbúðalána muni áfram taka mið af þeirri hörðu samkeppni sem ríki á markaðnum, og tekur dæmi um áhrif aukinnar samkeppni þegar litið er til íbúðalánasafns bankans.

„Veltan á því á síðasta ári, það er að segja endurfjármögnun eða ný lán, nemur næstum því helmingnum af virði lánasafnsins í lok árs. Við veittum um 211 milljarða af nýjum lánum á síðasta ári og safnið stækkaði um 85 milljarða, og endaði í 485 milljörðum.

Það er mikið um endurfjármögnun og góðar síður á vefnum þar sem hægt er að fylgjast vel með og þær veita neytendum ágæta yfirsýn á markaðinn.“

Þekkt staðreynd að arðsemi vilji verða meiri

Spurður hvort rétt sé metið hjá ráðherranum, að bankarnir muni hagnast meira nú þegar stýrivextir fara hækkandi, segir Benedikt:

„Það er þekkt staðreynd að arðsemi banka hefur tilhneigingu til að fara niður í lágvaxtaumhverfi og verða meiri í hávaxtaumhverfi, en það er líka háð samkeppni og öðrum þáttum. Við förum ekki varhluta af þeim kostnaðarhækkunum sem eru í gangi núna.

Við erum umfangsmiklir kaupendur að hugbúnaðarþjónustu og sömuleiðis með margt fólk í vinnu á sama tíma og laun hafa verið að taka breytingum.“

Töpuðu minna af útlánum en óttast var

Hagnaður bankans á síðasta ári var umfram þær væntingar sem stjórnendur bankans höfðu í upphafi ársins.

„Það sem við héldum að við myndum tapa af útlánum, sökum faraldursins, reyndist ofmat af okkar hálfu. Svo voru mikil umsvif og mikið að gera þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja, við vorum að skrá félög á markað og ýmis viðskipti jukust sem fela í sér þóknanatekjur fyrir okkur.

Aðalbreytingin í okkar starfsemi er rekstur sem áður skilaði ekki góðri arðsemi, það er fyrirtækja- og fjárfestingabankastarfsemin, hún er nú farin að skila asemi í takt við okkar arðsemismarkmið. Það munar um það því þetta er fjárfrek starfsemi – það er mikið af eigin fé bankans bundið í henni.“

Að lokum bendir hann á að síðasta ár hafi á alþjóðavísu verið með þeim bestu fyrir starfsemi fjárfestingabanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka