Segir ríkið þurfa að koma hraustlega að málum

Ferðamenn á Íslandi | 14. mars 2024

Segir ríkið þurfa að koma hraustlega að málum

Spár um fjölda ferðamanna á árinu eru í uppnámi og þar með áætlanir ríkissjóðs um verðmætasköpun og skattheimtu af ferðaþjónustu. Alvarlega staða er komin upp sem virðist þó liggja stjórnvöldum í léttu rúmi.

Segir ríkið þurfa að koma hraustlega að málum

Ferðamenn á Íslandi | 14. mars 2024

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónstunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónstunnar. mbl.is/Hákon

Spár um fjölda ferðamanna á árinu eru í uppnámi og þar með áætlanir ríkissjóðs um verðmætasköpun og skattheimtu af ferðaþjónustu. Alvarlega staða er komin upp sem virðist þó liggja stjórnvöldum í léttu rúmi.

Spár um fjölda ferðamanna á árinu eru í uppnámi og þar með áætlanir ríkissjóðs um verðmætasköpun og skattheimtu af ferðaþjónustu. Alvarlega staða er komin upp sem virðist þó liggja stjórnvöldum í léttu rúmi.

Þetta segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í grein í ViðskiptaMogganum í gær.

Í greininni, sem ber yfirskriftina „Hvað eru nokkrir loðnubrestir á milli vina?“, ber Bjarnheiður m.a. saman tekjumissi fyrir þjóðina annars vegar vegna samdráttar í ferðaþjónustu og hins vegar vegna loðnubrests.

Taka stöðuna ekki alvarlega

„Ávallt er mikið fjallað um loðnubrest í fjölmiðlum, um afleiðingar hans á sveitarfélög, ríkissjóð, fyrirtæki og almenning. Allt er þetta eðlilegt og skiljanlegt. Við erum í grunninn sjávarútvegsþjóð og hvert mannsbarn skilur hvað gerist, þegar aflabrestur verður,“ ritar Bjarnheiður, sem bendir þó á að við séum ekki bara sjávarútvegsþjóð heldur einnig ferðaþjónustuþjóð. Þannig sé ferðaþjónustan áætluð 8,5% af landsframleiðslu síðasta árs.

„Útflutningstekjur af ferðaþjónustu voru tæpir 600 milljarðar í fyrra, nærri samanlagðar útflutningstekjur af fiski og áli, auk þess sem meiri virðisauki verður eftir í landinu. Hagsmunir þjóðarbúsins af ferðaþjónustu þarfnast ekki frekari útskýringa.“

Verulegur samdráttur hefur þó mælst á fyrstu mánuðum ársins í ferðaþjónustu. Þannig voru gistinætur í janúar tæpum 10% færri en í fyrra.

„Ef við gefum okkur að samdráttur í fjölda ferðamanna verði 5% á þessu ári munu tekjur (raunvirði útflutnings í ferðaþjónustu) dragast saman um 25 milljarða (loðnubrestur í eitt ár) og verg landsframleiðsla mun dragast saman um 0,6%. Auðvelt er að margfalda þessar tölur í réttu hlutfalli, verði samdrátturinn meiri.“

Íþyngja ferðaþjónustunni

Hún segir stjórnvöld íþyngja ferðaþjónustu frekar en hitt með aukinni skattheimtu og þrengra regluverki.

„Auk þess passar það illa inn í excel-töflu fjármálaráðuneytisins að styðja við ímynd áfangastaðarins Íslands og vinna gegn neikvæðum áhrifum erlendrar fjölmiðlaumfjöllunar, þótt vitað sé að fjármagn sem varið er til markaðssetningar skilar sér margfalt til baka.“

Hún segir verulegan samdrátt í ferðaþjónustu, líkt og þegar loðnubrestur verður, hafa áhrif á afkomu Íslendinga, einstök byggðarlög og ríkissjóð.

„Nú er full ástæða til að snúa vörn í sókn og mæta þessari stöðu með stóraukinni markaðssetningu. Fyrirtækin láta aldrei sitt eftir liggja og nú þarf ríkið að koma hraustlega að málum.“

mbl.is