Mannskæðustu skotárásir sögunnar

Árásarmaður hóf skothríð í barnaskóla í Newtown í Connecticut í …
Árásarmaður hóf skothríð í barnaskóla í Newtown í Connecticut í gær. Hann drap 26, þar af 20 börn. AFP

Oft er skammt stórra högga á milli þegar mannskæðar skotárásir eru annars vegar. Annað slagið, stundum oft á ári, eru slík voðaverk framin. Skotárás á barnaskóla í Connecticut er nýjasta dæmið og er ein mannskæðasta skotárás sögunnar.

20. júlí, 2012: 12 manns féllu er árásarmaður hóf skothríð í kvikmyndahúsi í bænum Aurora í Colorado í Bandaríkjunum. Verið var að frumsýna kvikmyndina The Dark Knight Rises. James Holmes, 24 ára, bar ábyrgð á árásinni.

11. mars 2012: Sextán Afganar, þeirra á meðal níu börn, voru drepin er bandarískur hermaður gekk berserksgang. Hann gekk á milli húsa, myrti fólk og kveikti í líkum. Sá heitir Robert Bales, 39 ára, og hefur hann verið ákærður af herrétti.

22. júlí 2011: Norðmaðurinn Anders Behring Breivik drap 77 í Ósló og Útey. Hann var á þessu ári dæmdur í fangelsi fyrir ódæðið.

8. janúar 2011: Árásarmaður skaut sex til bana og særði 13 til viðbótar, þeirra á meðal þingkonuna Gabrielle Giffords, fyrir utan matvöruverslun í Tucson, Arizona. Læknar segja að árásarmaðurinn Jared Lee Loughner, sem hefur verið dæmdur í lífstíðafangelsi fyrir árásina, þjáist af geðklofa.

2. ágúst 2010: Omar Thornton skaut tíu manns, þar af létust átta, í vöruhúsi í Manchester í Connecticut. Hann tók svo eigið líf. Þar til í gær var þetta mannskæðasta skotárás í ríkinu.

5. nóvember 2009: Þrettán hermenn og óbreyttir borgarar voru drepnir og margir særðir er maður hóf skothríð í herstöð í Texas. Maðurinn, Nidal Hasan, var sálfræðingur hersins og hefur hann veri ákærður fyrir 13 morð og 32 tilraunir til morðs.

3. apríl 2009: 41 árs maður hóf skotárás í miðstöð innflytjenda í Binghamton í New York. Ellefu innflytjendur féllu og tveir starfsmenn miðstöðvarinnar. Jiverly Wong, víetnamskur innflytjandi skaut svo sjálfan sig. Hann var áður nemandi við miðstöðina.

16. apríl 2007: Seung-Hui Cho, 23 ára, drap 32 og svo sjálfan sig í Virginia Tech-háskólanum í Blacksburg.

27. september 2001: 57 ára svissneskur karlmaður vopnaður fleiri en einni byssu drap 14 manns í húsi þingsins í borginni Zug og særði 18. Friedrich Leibacher tók svo eigið líf. Hann var óánægður með meðferð sem hann hafði fengið hjá hinu opinbera.

20. apríl 1999: Nemarnir Eric Harris, 18 ára, og Dylan Klebold, 17 ára, hófu skothríð í Columbine menntaskólanum í Littleton, Colorado. Þeir myrtu tólf skólafélaga sína og kennara. 26 særðust. Þeir tóku svo eigin líf á bókasafni skólans.

28. apríl 1996: Martin Bryant, 29 ára, ruddist inn á kaffihús í bænum Port Arthur í  Tasmaníu í Ástralíu og skaut 20 manns til bana. Hann ók svo á brott og skaut 15 manns til viðbótar. Hann var handtekinn og síðar dæmdur í fangelsi.

13. mars 1996: Thomas Hamilton, 43 ára, drap 16 leikskólabörn og kennara þeirra í  skóla í Dunblane á Skotlandi. Hann tók svo eigið líf.

16. október 1991: Skotárás var gerð í Killeen í Texas. George Hennard hóf að skjóta af byssu á kaffihúsi. Hann drap 23 og tók svo eigið líf. 20 til viðbótar særðust í árásinni.

18. júlí 1984: James Oliver Huberty, atvinnulaus öryggisvörður. drap 21 á McDonald's veitingahúsi í San Ysidro í Kaliforníu. Lögregla skaut hann síðan til bana.

1. ágúst 1966: Charles Whitman hóf skothríð úr klukkuturni við Háskólann í Texas í Austin. Hann drap sextán og særði 31.

Anders Behring Breivik drap 77 í fyrra. Útey í baksýn.
Anders Behring Breivik drap 77 í fyrra. Útey í baksýn. AFP
Blóm fyrir framan kvikmyndahús í Aurora þar sem 12 manns …
Blóm fyrir framan kvikmyndahús í Aurora þar sem 12 manns féllu er árásarmaður hóf skothríð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert