Iðrunarlaus yfir rauðu línuna

Trump hefur vakið viðbrögð í Bretlandi með ummælum sínum um …
Trump hefur vakið viðbrögð í Bretlandi með ummælum sínum um múslima og staðhæfingum sínum um að breska lögreglan veigri sér frá því að fara inn í ákveðin hverfi Lundúna vegna íbúasamsetningarinnar. 192.448 hafa skrifað undir áskorun til breskra stjórnvalda um að meina Trump að ferðast til Bretlands en Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna og annar litríkur stjórnmálamaður, skaut pillunni aftur yfir Atlandshaf og sagði að eina ástæða þess að hann færi ekki inn í ákveðin hverfi New York-borgar væri hin raunverulega hætta á að mæta Donald Trump. AFP

Viðskiptajöfurinn og forsetaframbjóðandinn Donald Trump hefur enn og aftur fangað athygli fjölmiðla og stjórnmálaspekúlanta með fordómafullum ummælum sínum, sem að þessu sinni snúa að því að banna múslimum að ferðast til Bandaríkjanna.

Hugmyndir Trump um það hvernig verja má Bandaríkin gegn ofstækis- og hryðjuverkamönnum úr röðum múslima hafa verið fordæmd af pólitískum andstæðingum og samherjum, og harðlega gagnrýnd af erlendum ráðamönnum, sem leggja ekki í vana sinn að taka einarða afstöðu þegar kosningabarátta stendur yfir vestanhafs.

Frétt mbl.is: Enga múslima til Bandaríkjanna

„Við þurfum að taka algjörlega fyrir komu múslima til Bandaríkjanna þar til við komumst til botns í því hvað í fjáranum er í gangi,“ sagði Trump. Þeirri gangrýni sem ummælin vöktu svaraði hann með því að segja að líklega væru tillögur hans ekki „politically correct“, „En. Mér. Er. Alveg. Sama.“

Þrátt fyrir að standa við hugmyndir sínar sagði hann síðar að bannið myndi ekki ná til bandarískra ríkisborgara né ráðamanna annarra ríkja eða íþróttafólks sem kæmi til Bandaríkjanna til að taka þátt í keppnum.

Gagnrýndur úr öllum áttum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Trump afhjúpar fordóma sína gagnvart múslimum, en þegar það bar á góma í viðtali að skrásetja múslima í gagnagrunn og láta þá ganga með sérstök skilríki, sagði hann að það væri eitthvað sem mætti skoða.

Nú virðist hann hinsvegar hafa farið yfir strikið, en mótherjar hans í slagnum um útnefningu repúblikana, sem hafa allir heitið því að styðja þann sem fer með sigur af hólmi, eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt hinn litskrúðuga samflokksmann sinn.

Frétt mbl.is: Trump ógnar þjóðaröryggi

Jeb Bush sagði Trump ekki í jafnvægi og Ted Cruz sagðist ósammála tillögum hans, en þingforsetinn Paul Ryan og leiðtogi repúblikana í öldungadeildinni, Mitch McConnell, sögðu þær stangast á við gildi flokksins og Bandaríkjanna.

„Ég tel að þessi hugmynd um að við þurfum að segja nei við fleiri múslimum og einfaldlega banna heil trúarbrögð gangi gegn öllu sem við stöndum fyrir og trúum á,“ sagði Dick Cheney, fyrrverandi varaforseti.

Pólitískir andstæðingar létu einnig þung högg falla og sagði Josh Earnest, talsmaður Hvíta hússins, að ummæli Trump gerðu hann óhæfan til að gegna forsetaembættinu, þar sem forsetinn þyrfti að sverja þess eið að varðveita og standa vörð um bandarísku stjórnarskrána. Hún kveður á um trúfrelsi.

Forsetaframbjóðandinn Hillary Clinton, líklegasti kandídat demókrata, gaf út yfirlýsingu þar sem hún sagði að Trump hefði komist áfram með því að spila inn á fordóma og ofsóknarbrjálæði og á sama tíma gefið málflutningi hryðjuverkamanna byr undir báða vængi með því að styrkja þá ímynd að Bandaríkin hötuðu múslima.

Menn eru ekki á einu máli um hvort Trump gæti …
Menn eru ekki á einu máli um hvort Trump gæti sigrað Clinton í kapphlaupinu um Hvíta húsið. Þrátt fyrir miklar og óvæntar vinsældir Bernie Sanders er Clinton líklegust til að hljóta útnefningu demókrata en erfiðara er að spá um hvernig fer hjá repúblikönum, ekki síst ef Trump heldur áfram á sömu braut. Margir flokksbræðra hans eru alls ekki hrifinir, en ef einhver annar forsetaefna repúblikana hlýtur útnefninguna og Trump stendur við hótun sína um að bjóða sig fram sem sjálfstæður kandídat, þá er næsta víst að Clinton stæði uppi með pálmann í höndunum. AFP

Bandamenn segja ummælin „óhjálpleg“ og kynda undir hatur

Clinton benti einnig á að aðrir frambjóðendur repúblikana væru ekki saklausir af því að kynda undir fordóma og tíndi m.a. til ummæli Ben Carson um að múslimi ætti aldrei að verða forseti og ummæli Marco Rubio, þar sem hann líkti múslimum við meðlimi nasistaflokksins.

Nasistasamlíkingin hefur reyndar ítrekað komið upp í tengslum við ummæli Trump um múslima, ekki síst hvað varðar sérstakt eftirlit með þeim. Viðskiptajöfurinn þykir þó ganga enn lengra en liðsmenn þeirra flokka í Evrópu sem hafa barist hvað harðast gegn innflytjendum og mótttöku flóttafólks, þar sem hann virðist virða trúfrelsið að engu.

Það vekur athygli að meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Trump eru leiðtogar helstu bandamanna Bandaríkjanna; Bretlands og Frakklands. David Cameron, forsætisráðherra Breta, sagðist algjörlega ósammála Trump og að ummæli hans væru bæði óhjálpleg og vitlaus.

Frétt mbl.is: Vilja banna Trump í Bretlandi

Þá sagði Manuel Valls, forsætisráðherra Frakka, að forsetaframbjóðandinn hefði aðeins kynt undir hatur og að hinn raunverulegi óvinur væru þeir sem aðhylltust róttæka íslamstrú.

Hvað varðar viðbrögð frá múslimum voru þau hörð. Viðskiptajöfurinn Khalaf Al Habtoor, frá Dubai, sagðist iðrast þess að hafa skrifað grein til stuðnings Trump í ágúst sl. „Ég harma að hafa stutt þig,“ sagði hann á NBC.

Utanríkisráðherra grannríkisins Kanada sagði ummæli Trump óásættanleg. „Við höfum aldrei verið jafn fjarri því sem við heyrum nú frá Bandaríkjunum,“ sagði Stephane Dion. Hann sagði langt á milli orðræðu Trump og kanadískra stjórnmálaflokka.

Samkvæmt CNN telja múslimar minna en 1% fullorðinna bandarískra ríkisborgara. …
Samkvæmt CNN telja múslimar minna en 1% fullorðinna bandarískra ríkisborgara. Þeim gæti fjölgað í 2,1% fyrir 2050. AFP

Hefur hótað að fara fram undir eigin merkjum

Það er erfitt að sjá fyrir sér hvaða áhrif þessi síðasta hneykslunar-sprengja Trump mun hafa á framboð hans. Hingað til hefur hann þótt sigurstranglegastur forsetaefna repúblikana, sem hafa ekki þorað að vega að honum að ráði.

Það hefur löngum verið ljóst að leiðtogum flokksins hugnast ekki gassagangurinn í frambjóðandanum en hann hefur hótað því, nú síðast í kjölfar gagnrýni flokksbræðra sinna, að bjóða sig fram sem sjálfstæður frambjóðandi hljóti hann ekki útnefningu flokksins.

Frétt mbl.is: Trump verri en Voldemort

Sjálfstætt framboð Trump gæti, og myndi líklega, gera út um vonir repúblikana til að ná Hvíta húsinu.

Rick Wilson, repúblikani og sérfræðingur í stefnumótun, sagði í samtali við Guardian að þeirri spurningu væri ósvarað hvort flokkurinn gæti staðið af sér Donald Trump. „Margir aðdáendur og stuðningsmenn Trump vilja ekki að flokkurinn komist af. Þeir vilja mynda popúlískan þjóðernisflokk sem snýst ekki um takmörkuð afskipti stjórnvalda og stjórnarskrána.“

Wilson sagði að sá tími myndi koma að flokkurinn þyrfti að gera upp við sig hvort hann ætlaði að vera „tröllaflokkurinn“ eða Repúlikanaflokkurinn.

Frétt mbl.is: Huffington Post rekur Trump

Það er ljóst að stuðningur við Trump meðal sístækkandi minnihlutahópa er í algjöru lágmarki en því er ekki að neita að hann hefur höfðað til margra Bandaríkjamanna, sem kunna að  meta hversu beinskeyttur hann virðist.

Gagnrýni hans hefur m.a. beinst að fjölmiðlum en eftir nýjasta útspil hans ákvað Huffington Post að endurskoða ákvörðun sína um að fjalla um framboð Trump á dægurmálasíðum sínum; framboð hans væri hreinlega ekkert gamanmál.

Margir hafa heillast af málflutningi Trump, sem hefur gefið sig …
Margir hafa heillast af málflutningi Trump, sem hefur gefið sig út fyrir að vera sá sem segir hlutina eins og þeir eru. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka