Vilja banna Trump í Bretlandi

69.352 hafa skrifað undir áskorun til stjórnvalda í Bretlandi um að meina viðskiptajöfurnum og forsetaframbjóðandanum Donald Trump um að ferðast til landsins. Tilefni undirskriftasöfnunarinnar eru hugmyndir Trump um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna.

Samkvæmt reglum um formlegar áskoranir til stjórnvalda, verða þau að bregðast við ef fjöldi undirskrifta nær 10.000. Viðbrögðin eru yfirleitt einhvers konar yfirlýsing. Ef fjöldi undirskrifta nær 100.000 skal hins vegar taka það til skoðunar að taka áskorunina til umræðu á þinginu.

Trump hefur látið fjölda ummæla falla síðustu misseri sem hafa farið fyrir brjóstið á fólki, svo ekki sé meira sagt. Tillögur hans um að meina múslimum að ferðast til Bandaríkjanna virðast hins vegar til þess fallnar að skaða kosningabaráttu hans, sem hefur verið á ótrúlegri siglingu.

Hugmyndin um að launa lambið gráa með því að banna Trump að koma til Bretlands kann að hljóma fáránlega, en hún virðist þó njóta nokkurs stuðnings meðal áhrifafólks. Meðal þeirra sem hafa hvatt innanríkisráðherrann Theresu May til að taka málið til skoðunar eru þingmenn Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins.

Uppfært kl. 11.03:

Undirskriftirnar hrynja inn og eru nú orðnar 80.671.

Það kann að vera að Trump hafi skotið sig í …
Það kann að vera að Trump hafi skotið sig í fótinn með hugmyndum sínum um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert