Herra forseti átt þú ekki börn?

„Herra forseti átt þú ekki börn?,“ kallaði Juan Vargas, þingmaður demókrata þegar Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, yfirgaf fund sem hann átti með þingmönnum repúblikana í gær. Vargas bað yfirvöld um að hætta að skilja börn að frá foreldrum sínum á landamærum Bandaríkjanna.

Juan Vargas þingmaður demókrata.
Juan Vargas þingmaður demókrata. AFP

Í tæpar sjö vikur hafa börn og foreldrar þeirra verið skilin að þegar þau koma með ólöglegum hætti til Bandaríkjanna. Undanfarna daga hafa birst myndir og hljóðupptökur frá stöðum sem börnum er haldið á vegum bandarískra yfirvalda hefur gripið um sig mikil reiði meðal fólks. Ekki bara í Bandaríkjunum heldur víða um heim.

Á Íslandi hefur verið boðað til mótmæla á Austurvelli klukkan 17 á morgun og þaðan verður gengið að bandaríska sendiráðinu. Á Ísafirði hefur einnig verið boðað til mótmæla.

AFP

Í opnu bréfi sem yfir 100 starfsmenn Microsoft hafa ritað biðja þeir stjórnendur fyrirtækisins um að slíta samstarfi sínu við landamæraeftirlit Bandaríkjanna vegna málsins. Trump segist vilja leysa málið og segir að það sé í höndum þingmanna að gera það. En það hefur ekki gengið sem skyldi. Því þingmenn repúblikana í fulltrúadeildinni og öldungadeildinni eru ekki á sama máli þar.

Á fundi með sjálfstæðum atvinnurekendum í gær sakaði Trump enn eina ferðina demókrata um að bera ábyrgð á aðskilnaði fjölskyldna á landamærunum og neitar að grípa sjálfur inn. Það sé í höndum þingsins. Samkvæmt New York Times þá getur það ferli tekið mánuði.

En svo virðist sem Trump styðji frumvarp til laga sem repúblikanar ætla að leggja fram í fulltrúadeildinni. Í frumvarpinu er kveðið á um ýmis atriði sem Trump hefur sett í forgang. Svo sem fjármögunum byggingar múrs á landamærum og auka tálmanir á því að fólk geti sest að í Bandaríkjunum. 

AFP

Í gærkvöldi gerðu mótmælendur aðsúg að Kirstjen Nielsen heimavarnarráðherra þar sem hún sat að snæðingi á mexíkóskum veitingastað í Washington.

Fólkið kallaði skömm (shame!) að ráðherranum sem er orðin sú manneskja sem hefur einna helst varið aðskilnað fjölskyldna á landamærunum.

„Hvernig getur þú notið mexíkóskrar máltíðar þegar þú ert að vísa úr landi, fangelsa tugi þúsunda einstaklinga sem koma hingað og óska eftir alþjóðlegri vernd í Bandaríkjunum,“ sagði einn þeirra sem tóku þátt í mótmælunum.

Kirstjen Nielsen.
Kirstjen Nielsen. AFP
Donald Trump.
Donald Trump. AFP
mbl.is