Hafa deilt upptökum með öðrum ríkjum

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Tyrki hafa deilt upptökum úr …
Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti segir Tyrki hafa deilt upptökum úr ræðismannsbústaðnum með fleiri ríkjum. AFP

Tyrkir hafa deilt upptökum frá ræðismannsskrifstofu Sádi Arabíu í Istanbúl í tengslum við morðið á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi með Bandaríkjamönnum, Bretum, Þjóðverjum, Sádum og fleiri ríkjum.

Þetta kom fram í máli Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands í dag, en Khashoggi var myrtur á ræðismannsskrifstofunni 2. október sl., en ekkert ríki hefur þó staðfest að hafa upptökurnar undir höndum.

Líkamsleifarnar leystar upp í sýru

Sádar hafa viðurkennt að Khashoggi hafi verið myrtur á ræðismannsskrifstofunni og fram kom í tyrkneskum fjölmiðlum í dag að líkamsleifar Khashoggi hafi verið leystar upp í sýru og hellt niður. Sýni úr niðurföllum ræðismannsskrifstofunnar munu hafa sýnt merki um sýru. 

Sádar hafa neitað fyrir að meðlimir konungsfjölskyldunnar hafi haft nokkuð með morðið á Khashoggi að gera, en hann hafði gagnrýnt yfirvöld í Sádi Arabíu í skrifum sínum, einkum í greinum bandaríska dagblaðsins Washington Post.

Ekkert ríki staðfest afhendingu upptökunnar

Sádar hafa verið tvísaga um afdrif Khashoggi og í upphafi sögðu þeir hann hafa yfirgefið ræðismannsskrifstofuna óskaddaður. 18 manns hafa verið handteknir, grunaðir um morðið, og verða þeir saksóttir í Sádi Arabíu. Tyrkir hafa farið fram á framsal hinna grunuðu.

Ekkert ríki hefur játað því að hafa heyrt umræddar upptökur og utanríkisráðuneyti Breta hefur hvorki staðfest né neitað því að hafa fengið upptökurnar afhentar.

Frétt BBC um málið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert