Flytja búnað, ekki herlið, frá Sýrlandi

Bandarískur hermaður sést hér um borð í brynvörðum bíl í ...
Bandarískur hermaður sést hér um borð í brynvörðum bíl í borginni Manbij í norðurhluta Sýrlands. AFP

Bandaríkjaher hefur hafist handa við að flytja búnað frá Sýrlandi sem telst ekki vera nauðsynlegur. Bið verður þó á því að bandarískir hermenn yfirgefi landið, en að sögn embættismanna hjá bandaríska varnarmálaráðuneytinu ríkir enn óvissa um skipulagt brotthvarf Bandaríkjahers frá landinu.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði í síðasta mánuði að búið væri að sigra liðsmenn Ríki íslams í Sýrlandi og að allir bandarískir hermenn væru nú á heimleið.

En á undanförnum vikum hefur bæði Trump og aðrir í ríkisstjórn hans sent frá sér misvísandi skilaboð varðandi það hvenær brotthvarfið muni í raun eiga sér stað. 

John Bolton, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, setti á sunnudaginn fyrir tæpri viku fyrirvara á brotthvarfið sem virðast tefja það um óákveðinn tíma. 

Það ruglaði því marga í ríminu þegar einn af talsmönnum hersins sagði að ferlið við að draga herliðið frá landinu væri þegar hafið. 

Í gær sagði Sean Robertson, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, að ferlið væri komið í gang, en að það varðaði bandarískt herlið sem er staðsett í norðausturhluta Sýrlands, og væri unnið innan ramma sem bandarísk stjórnvöld hafa skilgreint og ákveðið.

Robertson sagði að ferlið væri skipulagt í tengslum við ríkjandi aðstæður í landinu og unnið í samtali við önnur bandalagsríki. Hann sagði að út frá öryggissjónarmiðum væri ekki greint nákvæmlega hvert hermenn yrðu fluttir og hvenær. 

Hann staðfestir aftur á móti að það sé ekki búið að flytja hermenn frá Sýrlandi og að verkefnið sé enn það sama. 

Embættismenn sem starfa hjá varnarmálaráðuneytinu segja að flutningurinn eigi við ákveðnar tegundir af búnaði en ekki um hermenn. 

„Við erum ekki að kalla hermenn heim á þessu stigi,“ sagði einn embættismaður í samtali við AFP-fréttstofuna. 

Annar embættismaður segir í samtali við AFP, að Bandaríkjaher hafi hafið undirbúning að brotthvarfi. Það snúi að skipulagi hvenær eigi að flytja bæði mannskap og búnað. Hann tók hins vegar í sama streng og hinn embættismaðurinn að ekki væri búið að kalla hermenn heim. 

mbl.is
Bang & Olufsen hljómtæki til sölu
til sölu um 10 ára gömul Bang og Olufsen hljómtæki. Beosound 4000, Beolab 4000 s...
Íbúð óskast til leigu
Óska eftir lítilli 2 herbergja eða rúmgóðri stúdíóíbúð á Reykjavíkursvæðinu hels...
Húsgagnaviðgerðir og bólstrun
Ég tek að mér viðgerðir og bólstrun á gömlum og nýjum húsgögnum. Starfsemin fer ...